Innlent

Vörur hrundu úr hillum þegar jarð­skjálftinn reið yfir

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ýmiskonar vörur hrundu úr hillum verslunarinnar við skjálftann.
Ýmiskonar vörur hrundu úr hillum verslunarinnar við skjálftann. Starfsfólk Nettó

Vörur hrundu úr hillum verslunar Nettó í Grindavík þegar heldur kröftugur skjálfti, sem var 5,4 að stærð, reið yfir klukkan 14:15 í dag. Skjálftinn átti upptök sín um fimm kílómetra suðvestur af Fagradalsfjalli.

Í myndbandi sem fréttastofa fékk sent frá starfsfólki Nettó í Grindavík sést hvar skyrdósir, sjampóbrúsar og fleiri vörur verslunarinnar liggja á rúi og stúi um ganga verslunarinnar. Myndbandið má sjá hér að neðan.

Skjálftinn var með þeim stærri sem riðið hafa yfir síðan skjálftahrina hófst á Reykjanesskaga þann 24. febrúar. Þá varð skjálfti sem var 5,7 að stærð, en nokkrir skjálftar um eða yfir fimm hafa orðið síðan þá.

Í samtali við Vísi fyrr í dag sagðist Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, ekki hafa fengið fréttir af alvarlegu tjóni, hvorki á fólki né munum, í kjölfar skjálftans. Töluvert hafi þó verið um að innanstokksmunir dyttu úr hillum á heimilum fólks, og víðar, líkt og myndbandið að ofan sýnir.


Tengdar fréttir

Kýs eldgos fram yfir þessa stöðugu skjálfta

„Þetta var nú bara töluverður hávaði og högg eins og það væri keyrt á húsið,“ segir Bergur Brynjar Álfþórsson, formaður bæjarráðs Voga á Vatnsleysuströnd. Vogamenn hafa ekki farið varhluta af skjálftahrinunni síðustu vikur en Bergur segir skjálftann í dag þann öflugasta sem hann hefur fundið hingað til. Skjálftinn mældist 5,4 að stærð.

„Auknar líkur á eldgosi“

Líkur á eldgosi halda áfram að aukast, að sögn Kristínar Jónsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Skjálftavirknin hefur verið að færast til suður en skjálftinn fannst meðal annars á Sauðárkróki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×