Sport

Erlendir áhorfendur bannaðir á ÓL í Tókýó

Sindri Sverrisson skrifar
Það voru áhorfendur alls staðar að úr heiminum, meðal annars frá Íslandi, í Ríó árið 2016 að fylgjast með Neymar og fleiri af skærustu íþróttastjörnum heims.
Það voru áhorfendur alls staðar að úr heiminum, meðal annars frá Íslandi, í Ríó árið 2016 að fylgjast með Neymar og fleiri af skærustu íþróttastjörnum heims. Getty/Tim Clayton

Japönsk stjórnvöld hafa ákveðið að erlendir áhorfendur fái ekki að mæta á Ólympíuleikana eða ólympíumót fatlaðra í Tókýó í sumar, vegna kórónuveirufaraldursins.

Frá þessu er greint á vef Kyodo News í dag. Þar segir að búast megi við því að fulltrúar ríkisstjórnarinnar í Japan og skipulagsnefnd leikanna fundi bráðlega með fulltrúum alþjóða ólympíunefndarinnar til að taka formlega ákvörðun varðandi málið.

Japanska ríkisstjórnin taldi ótækt að áhorfendur kæmu til landsins í ljósi hættunnar á aukinni útbreiðslu kórónuveirunnar. Samkvæmt könnun eru 77% Japana á móti því að fá erlenda áhorfendur á leikana.

Í næsta mánuði ætla japönsk stjórnvöld svo að taka afstöðu til þess hve margir heimamenn fái að mæta á leikana til að berja fremsta íþróttafólk heims augum.

Ólympíuleikarnir verða settir 23. júlí og standa yfir til 8. ágúst. Ólympíumót fatlaðra fer svo fram 24. ágúst til 5. september.

Einn íslenskur keppandi hefur tryggt sér farseðilinn á Ólympíuleikana en það er sundmaðurinn Anton Sveinn McKee.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×