Sport

Brady man ekki eftir því að hafa kastað bikarnum á milli báta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Brady með dóttur sinni Vivian á sigurhátíðinni. Hún reyndi að fá pabba sinn til að hætta við að kasta bikarnum og hann hrósaði átta ára dóttur sinni fyrir það.
Tom Brady með dóttur sinni Vivian á sigurhátíðinni. Hún reyndi að fá pabba sinn til að hætta við að kasta bikarnum og hann hrósaði átta ára dóttur sinni fyrir það. Getty/Mike Ehrmann

Átta ára dóttir Tom Brady reyndi að fá hann til kasta ekki NFL bikarnum yfir á næsta bát í sigurhátíðinni á dögunum og hann þakkar fyrir það að innherjinn „greip frá honum „sendinguna“.

NFL-meistarinn Tom Brady mætti í viðtalsþáttinn „The Late Late Show with James Corden“ í vikunni og fór meðal yfir þá ákvörðun sína að kasta Lombardi bikarnum yfir á næsta bát í sigurhátíð Tampa Bay Buccaneers liðsins.

Þetta var fyrsta viðtal Brady frá atvikinu sem varð tveimur dögum eftir sigur Tampa Bay Buccaneers í Super Bowl sem var sjöundi meistaratitill Tom Brady á ferlinum.

Menn þóttust sjá nýja hlið á Brady í fögnuðinum en hann sleppti svo sannarlega af sér beltinu þennan sólríka dag á Hillsborough ánni sem rennur í gegnum miðbæ Tampa.

Leikmenn Tampa Bay Buccaneers fögnuðu þá saman á nokkrum bátum og sigldu fram hjá stuðningsmönnum sem voru samankomnir á árbakkanum.

Atvikið sem allir töluðu um var þó þegar Tom Brady kastaði hinum eftirsótta Lombardi bikar yfir á næsta bát. Brady viðurkenndi í viðtalinu að hann muni ekki almennilega eftir því að hafa gert þetta.

„Í fyrsta lagi þá var ég ekki að hugsa á þessari stundu. Þetta virtist bara vera eitthvað sem var gaman að gera, sagði Tom Brdy hlæjandi.

„Við megum ekki gleyma því að það eru líka beittar brúnir á botni bikarsins og ég komst af því seinna að ef sendingin hefði ekki heppnast þá voru um 80 fet (rúmir 24 metrar) niður á botn. Ég er því mjög ánægður með að innherjinn Cam [Brate] greip bikarinn,“ sagði Brady.

Brady talaði einnig um það að honum fyndist dóttir sín Vivi hafi verið stjarnan í myndbandinu. Rétt áður en Brady kastaði bikarnum þá kallaði hún: „Pabbi, nei“.

„Þetta var litla átta ára dóttir mín. Hver hefði getað ímyndað sér að átta ára stelpa sýndi mesta hyggjuvitið á svæðinu. Eins og ég segi hún er rödd skynseminnar,“ sagði Brady.

Hér fyrir neðan má sjá atvikið með bikarinn.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×