Fótbolti

Malasískur prins vill kaupa Valencia

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Johor prins við hlið frönsku goðsagnarinnar Robert Pires eftir góðgerðaleik árið 2019.
Johor prins við hlið frönsku goðsagnarinnar Robert Pires eftir góðgerðaleik árið 2019. Getty/Allsport

Stuðningsmenn spænska fótboltafélagsins vilja fá nýjan eiganda til að rífa upp félagið og sá gæti komið úr einni af konungsfjölskyldum heimsins.

Malasíski prinsinn Johor Tunku Ismail ibni Sultan Ibrahim virðist hafa mikinn áhuga á framtíð eigandahóps Valenica ef marka má færslur hans á Instagram.

Hinn 36 ára gamli prins deildi þá mörgum skjáskotum af fréttum um Valencia og af netsíðu þar sem kemur fram að Valencia sé metið á 498 milljónir evra. Hann hafði áður lýst því yfir að hann hefði áhuga á því að kaupa félagið.

Johor prins á þegar fótboltafélagið JDTFC en það spilar í súperdeildinni í heimalandinu.

Johor prins segir að peningar drífi hann ekki áfram heldur frekar að öðlast virðingu og að skrifa söguna.

„Ég er ekki nýkominn í fótboltann. Ég hef búið til félag sem undir minni stjórn fór frá því að vera í fallbaráttu á hverju ári í að vinna meistaratitilinn sannfærandi. Ég hef unnið sextán titla á átta árum. Við erum stærsta félagið í suðaustur Asíu og eitt af því stærsta í allra Asíu,“ sagði Johor prins í viðtali við ESPN.

„Ég vil stækka veldi mitt, prófa eitthvað nýtt og takast á við nýjar áskoranir,“ sagði Johor.

Peter Lim, viðskiptamaður frá Singapúr, á Valencia og hefur ekki látið það í ljós að hann vilji selja félagið. Hann eignaðist félagið mjög skuldugt árið 2014 en hefur ekki unnið sér inn vinsældir með því að selja alla bestu leikmenn liðsins til að greiða þær niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×