Skoðun

Hver verðskuldar þitt hrós?

Ingrid Kuhlman skrifar

Alþjóðlegi hrós­dag­ur­inn er hald­inn hátíðleg­ur 1. mars um heim all­an. Haldið var fyrst upp á daginn í Hollandi fyr­ir 18 árum en nú er honum fagnað víða um heim, meðal annars hér á landi.

Á vefsíðu alþjóðlega hrósdagsins www.worldcomplimentday.com segir að það sé markmið aðstand­enda hans að hann verði „já­kvæðasti dag­ur heims­ins.“ Þeir benda jafn­framt á að eng­in markaðsöfl teng­ist þessum deg­i eins og verða vilji með suma aðra daga eins og t.d. Valentínusardaginn. Höfðað sé til einn­ar af grunnþörf­um manns­ins sem er að vera metinn að verðleikum.

Hrós þarf að vera einlægt

Hrósdagurinn snýst um að íhuga meðvitað það jákvæða í fari fólks og tjá því með fallegum orðum að þú kunnir að meta það. Einlægt og persónulegt hrós getur gert kraftaverk. Það er ekkert sem gleður meira, gefur meiri orku og eykur vellíðan meira en einlægt hrós. Á vinnustöðum skiptir hrós sköpum fyrir frammistöðu og vellíðan starfsmanna. Hrós hvetur starfsmenn til dáða og eflir sjálfstraustið og stoltið. Vel meint og einlægt hrós ýtir undir jákvæð samskipti og getur breytt andrúmsloftinu í einni svipan. Hrós er auk þess staðfesting á því að við séum að gera réttu hlutina og að það sé tekið eftir því. Með því að hrósa af einlægni sýnum við persónulegan áhuga og viðurkenningu. Gott hrós einblínir á hegðun og atriði sem við getum haft stjórn á. Það er nákvæmt og sértækt, jákvætt orðað og veitt eins fljótt og hægt er eftir að tiltekin hegðun átti sér stað.

Listin að þiggja hrós

Það er ekki aðeins list að kunna að hrósa heldur einnig að kunna að þiggja hrós. Mik­il­vægt er að gangast við hrós­i og sýna þakk­læti, t.d. með því að segja „Takk fyr­ir falleg orð í minn garð“ eða „Virki­lega gam­an að heyra“. Þessi orð skipta miklu máli og gefa þeim sem hrósar til­finn­ing­una að þú haf­ir tekið við hrós­inu og kunn­ir að meta það. Ekki er gott að skipta um umræðuefnið þegar þú færð hrós; það gæti virkað sem ókurteisi. Það er heldur ekki ráðlagt að gera lítið úr sjálfum sér, fara undan í flæmingi eða slá hrósinu upp í fíflagang. Segjum einfaldlega „Takk“ og meðtökum gjöfina sem hrós svo sannarlega er.

Hrós ýtir undir jákvæð mannleg samskipti og felur í sér umhyggju og kærleika. Það er einföld leið til að sýna velvild og þakklæti í ys og þys hversdagsins. Við getum öll horft oftar á jákvæðu hliðarnar og hrósað hvert öðru fyrir það sem vel er gert. Hlutirnir þurfa nefnilega ekki að vera fullkomnir til að vera góðir.

Notum alþjóðlega hrósdaginn til að gefa einhverjum hrós.

Höfundur hrinti hrósdeginum á Íslandi af stað árið 2013 og stofnaði Facebook-síðuna Hrós dagsins. Þar setja um 6.000 manns reglulega inn hrós.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×