Innlent

Mælir gegn gönguferðum á Keili vegna skjálfta

Elísabet Inga Sigurðardóttir og Birgir Olgeirsson skrifa
Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni.
Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni. Vísir/baldur

Kristín Jónsdóttir, jarðvásérfræðingur, mælir ekki með gönguferðum á Keili vegna skjálfta sem nú ganga yfir.

„Virknin hefur verið að færast aðeins til norðausturs og þessi skjálfti er rétt utan við Keili, rétt um kílómetra vestan við Keili,“ sagði Kristín.

Skjálftinn var um 4,3 að stærð og fannst vel á höfuðborgarsvæðinu.

„Þessi hrinuvirkni er enn í gangi og við erum greinilega að sjá færslur á henni. Hún hefur verið mjög staðbundin þarna nyrst í Fagradalsfjalli en við erum að fylgjast með smá breytingu núna.“

„Virknin er að færast til norðausturs þannig eins og við, og Almannavarnir, erum búin að tala um í sambandi við gönguferðir þá myndi ég ekki mæla með gönguferðum á Keili akkúrat núna,“ sagði Kristín.

Færsla á virkninni

Hún segir færsluna litla og segir enga stefnu í átt að Bláfjöllum.

„Nei þetta er bara örlítil færsla. Þetta er áframhald af þessari virkni og hefur bara færst um nokkra kílómetra til norðausturs þannig virknin er enn bundin frá Keili og rétt svona rétt suður fyrir Fagradalsfjall að mestu.“

Í nótt sást smá virkni við Trölladyngju að sögn Kristínar en annars er mesta virknin á milli norðurenda Fagradalsfjalls og Keilis.

Um tvö þúsund skjálftar hafa riðið yfir frá miðnætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×