Handbolti

Hinn ís­lensk ættaði snýr aftur í lið heims­meistaranna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hans leikur með Fuchse Berlín í Þýskalandi og hefur gert í áraraðir.
Hans leikur með Fuchse Berlín í Þýskalandi og hefur gert í áraraðir. Florian Pohl/Getty

Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska landsliðsins í handbolta, hefur valið hópinn fyrir komandi leiki í undankeppni Evrópumótsins 2022.

Danir sóttu gull til Egyptalands í janúar en þetta er annað heimsmeistaramótið í röð sem Danir ná í gull.

Hans Lindberg, hinn 39 ára gamli hornamaður, var ekki valinn í leikmannahóp danska landsliðsins í janúar en nú er hinn íslenskættaði aftur kominn í hópinn.

Foreldrar hans eru Sigrún Sigurðardóttir og Tómas Erling Lindberg Hansson, bæði úr Hafnarfirði, en faðir hans á þó færeyska foreldra.

Þaðan er ættarnafnið komið en sjálfur er hann skráður sem Hans Óttar Tómasson í íslenskri þjóðskrá.

Hann kemur inn í stað Lasse Svan Hansen sem meiddist í úrslitaleiknum gegn Svíþjóð á HM og hefur enn ekki jafnað sig.

Henrik Toft Hansen og Lasse Møller koma einnig inn í hópinn en þeir Morten Olsen og Anders Zachariassen detta út úr hópnum.

Danir mæta Norður-Makedóníu í Álaborg en ferðast svo til Skopje og mæta þar heimamönnum.

Allan hóp danska liðsins má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×