Man United í góðum málum eftir fyrri leikinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bruno Fernandes skoraði tvö mörk í kvöld.
Bruno Fernandes skoraði tvö mörk í kvöld. Matthew Peters/Getty Images

Lærisveinar Ole Gunnar Solskjær í Manchester United eru í góðum málum eftir fyrri leik liðsins gegn Real Sociedad í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Unnu þeir leikinn 3-0 og eru því í kjörstöðu fyrir síðari leik liðanna sem fram fer á Old Trafford eftir viku.

Leikur Real Sociedad og Manchester United fór fram á Allianz-vellinum í Tórínó á Ítalíu en ekki á Spáni sökum kórónufaraldursins. Það virtist sem bæði lið héldu að ekki væri um tveggja leikja einvígi að ræða en leikurinn hófst eins og borðtennis.

Adnan Januzaj – fyrrum leikmaður Man United – hóf leikinn á góðu skoti sem fór rétt framhjá marki United án þess að Dean Henderson gæti rönd við reist í marki „gestanna.“ Marcus Rashford fékk svo tvö frábær færi til að koma United yfir og Scott McTominay átti gott skot úr þröngu færi en allt kom fyrir ekki.

Fyrsta markið kom svo á 26. mínútu er Rashford lyfti boltanum inn fyrir vörn Sociedad. Bruno Fernandes var í hlaupinu en það virtist sem Alex Remiro, markvörður Sociedad, myndi ná boltanum en hann stökk upp og lenti á miðvörðum sínum.

Bruno þakkaði pent fyrir sig með því að setja boltann í netið með vinstri fæti og staðan orðin 1-0 Man Utd í vil. Var þetta tuttugasta mark Fernandes á leiktíðinni. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og gestirnir frá Englandi því marki yfir er liðin gengu til búningsherbergja.

Fernandes tvöfaldaði forystu United-manna þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Rashford átti þá sendingu á Daniel James sem – mögulega óviljandi – lagði boltann fullkomlega upp á Bruno sem setti hann út við stöng og kom þeim í 2-0.

Markið var margskoðað af myndbandsdómurum leiksins áður en komist var að þeirri niðurstöðu um að gilt mark væri að ræða. Tæpum tíu mínútum síðar gerði Rashford svo út um leikinn. Hann afgreiddi boltann snyrtilega í hornið eftir að Fred stakk boltanum inn fyrir vörn Sociedad.

James skoraði fjórða mark Man United á 67. mínútu en það var dæmt af vegna rangstöðu í aðdraganda marksins. Undir lok leiks komu svo Amad Diallo og Juan Mata inn af varamannabekk Manchester-liðsins. Um er að ræða fyrsta leik Diallo fyrir aðallið félagsins.

James var aftur á ferðinni rétt fyrir lok leiks þar sem hann spændi upp hægri vænginn og endaði á því að leggja boltann í hornið niðri í fjær. Það mark stóð og staðan orðin 4-0. Reyndust það lokatölur leiksins og ljóst er að Sociedad þarf á kraftaverki að halda á Old Trafford til að fara áfram.


Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira