Handbolti

Mikkel Hansen snýr heim til Danmerkur á næsta ári og spilar hjá Arnóri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikkel Hansen var markahæsti leikmaður Dana á HM í Egyptalandi þar sem danska liðið stóð uppi sem sigurvegari.
Mikkel Hansen var markahæsti leikmaður Dana á HM í Egyptalandi þar sem danska liðið stóð uppi sem sigurvegari. getty/Slavko Midzor

Mikkel Hansen, stærsta handboltastjarna Dana, snýr væntanlega heim á næsta ári og gengur í raðir Aalborg frá Paris Saint-Germain.

TV 2 greindi frá því í morgun að Hansen hafi náð samkomulagi við Aalborg og muni skrifa undir þriggja ára samning við félagið.

Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg sem hefur orðið danskur meistari síðustu tvö ár.

Hansen, sem er 33 ára, hefur leikið með PSG frá 2012 og er markahæsti leikmaður í sögu félagsins. Hann hefur sjö sinnum orðið franskur meistari með PSG.

Hansen hóf ferilinn með GOG en fór til Barcelona 2008. Eftir tvö ár þar gekk hann í raðir AG Kobenhavn þar sem hann lék með Arnóri, Ólafi Stefánssyni, Snorra Steini Guðjónssyni og Guðjóni Val Sigurðssyni.

Hansen er nýkrýndur heimsmeistari með danska landsliðinu. Hann hefur tvisvar sinnum unnið HM auk þess að verða Evrópu- og Ólympíumeistari með Dönum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×