Fótbolti

Mbappé fór aftur á kostum fyrir framan Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe fagnar einu af mörkunum sínum á móti Barcelona í gærkvöldi.
Kylian Mbappe fagnar einu af mörkunum sínum á móti Barcelona í gærkvöldi. AP/Joan Monfort

Franski knattspyrnumaðurinn Kylian Mbappé ætlar greinilega að leggja það í vana sinn að sýna sínar allra bestu hliðar þegar hann stígur inn á sama knattspyrnuvöll og Lionel Messi.

Kylian Mbappé er bara 22 ára gamall en er fyrir löngu kominn í hóp allra bestu knattspyrnumanna heims. Hann undirstrikaði það með frammistöðu sinni í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Mbappé skoraði þrennu í 4-1 sigri Paris Saint Germain á móti Barcelona og það á sjálfum Nývangi.

Lionel Messi var einnig mjög ungur þegar hann komst í hóp knattspyrnumanna heims og hefur síðan verið fyrirmynd margra ungra knattspyrnumanna. Mbappé fær ekki stjörnur í augun þegar hann stígur inn á sama völl og argentínski snillingurinn heldur eflist hann miklu frekar. Þetta sýna tvö eftirminnileg dæmi.

Kylian Mbappé hefur aðeins mætt Lionel Messi tvisvar sinnum á ferlinum og fór á kostum í bæði skiptin.

Varnarmenn Barcelona réðu ekkert við Mbappé í gærkvöldi og þó að Lionel Messi hefði komið Börsungum yfir í leiknum þá var Mbappé fljótur að jafna metin. Mbappé skoraði síðan tvö mörk til viðbótar í seinni hálfleiknum og stórsigur PSG á útivelli þýðir að franska liðið er komið með annan fótinn í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Þrenna fyrir útilið á heimavelli Barcelona er eitthvað sem gerist ekki á hverjum degi. Knattspyrnuspekingar voru líka í framhaldinu fljótir að rifja það þegar þeir Mbappé og Messi mættust í fyrsta skiptið.

Það var í sextán liða úrslitum á HM í Rússlandi fyrir að verða þremur árum síðan. Kylian Mbappé lagði þá upp fyrsta mark leiksins með því að fiska víti sem Antoine Griezmann skoraði úr. Mbappé skoraði síðan tvívegis í seinni hálfleiknum.

Kylian Mbappé hefur því spilað tvisvar sinnum á sama velli og Lionel Messi og í þeim leikjum hefur hann skorað fimm mörk sjálfur og lagt upp eitt mark að auki.

Tími Lionel Messi sem besti knattspyrnumaður heims virðist vera að renna út en það kæmi ekki á óvart ef Kylian Mbappé myndi taka sæti hans enda á strákurinn væntanlega frábæran feril fyrir höndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×