Erlent

Öngþveiti á sporbraut um Mars

Samúel Karl Ólason skrifar
Tövluteikning af lendingu Perseverance.
Tövluteikning af lendingu Perseverance. Vísir/NASA

Ákveðið öngþveiti verður á sporbraut um Mars í næstu viku þegar þrjú ný geimför hafa náð sporbraut um plánetuna. Kínverskt geimfar náði á braut um Mars í gær en þar var fyrir geimfar frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Annað geimfar, sem ber einnig vélmenni sem á að lenda á plánetunni rauðu og er frá Bandaríkjunum, fer á braut um Mars í næstu viku.

Kínverska geimfarið Tianwen-1 er fyrsta geimfarið sem Kínverjar senda til Mars. Það er um fimm tonn að þyngd en þar er meðtalið vélmenni sem til stendur að lenda á Mars. Áætlað er að reyna að lenda vélmenninu á næstu mánuðum eða í maí eða júní.

Takist það yrði Kína annað ríki heimsins til að lenda vélmenni á Mars.

Vélmennið kínverska, sem hefur ekki fengið nafn svo vitað sé, myndi þá nota neðanjarðarratsjá til að kanna hvort hægt væri að finna vatn undir yfirborði Mars og vísbendingar um það hvort finna hefði mátt líf á plánetunni á árum áður.

Kínverjar sendu nýverið geimfar til tunglsins, sem flutti sýni aftur til jarðarinnar.

Sjá einnig: Tunglfarið á leið til jarðar með mánagrjót

Í næstu viku ætla Bandaríkjamenn svo að lenda vélmenninu Persverance á Mars. Vélmennið er náskylt vélmenninu Curiosity, sem hefur verið á Mars frá 2012. Perserverance er fimmta vélmenni NASA sem á að lenda á Mars. Áður hefur Sojourner, Spirit, Opportunity og Curiosity verið lent þar.

Vélmennið er búið sex hjólum og er rúmt tonn að þyngd. Perserverance býr einnig yfir fjölmörgum tækjum og tólum sem ætluð eru til vísindarannsókna og leitar að ummerkjum lífs. Einnig er þyrla á vélmenninu sem til stendur að fljúga á Mars.

Þetta getur samt allt klikkað enda er ekki auðvelt að lenda vélmennum á Mars. Á Space.com má finna yfirlit yfir þau för sem senda hafa verið til Mars.

Hér má sjá ítarlegt myndband sem sýnir væntanlega lendingu Perseverance á Mars. Áhugasamir geta einnig skoðað gagnvirkt myndband hér sem sýnir hvernig lendingarferli Perseverance á að fara fram.


Tengdar fréttir

Flottustu myndirnar úr geimnum

Á hverju ári taka geimfarar um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni mikinn fjölda ljósmynda út um glerglugga sem snýr í átt að jörðinni. 

Segja lendinguna á tunglinu hafa heppnast

Yfirvöld í Kína segja að lending kínversks geimfars á tunglinu hafi heppnast. Geimfarið, sem kallast Chang'e 5, á að safna mánasteinum og flytja þá aftur til jarðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×