Erlent

Skipu­lagði flóttann í hálft annað ár

Atli Ísleifsson skrifar
Peter Madsen var handtekinn á stað um 400 og 500 metrum utan veggja fangelsisins.
Peter Madsen var handtekinn á stað um 400 og 500 metrum utan veggja fangelsisins. EPA/Nils Meilvang

Dómstóll í Danmörku dæmdi í morgun danska morðingjann og uppfinningamanninn Peter Madsen í 21 mánaða fangelsi fyrir tilraun sína til að flýja úr Herstedvester-fangelsinu vestur af Kaupmannahöfn í október í fyrra. Hann afplánar nú þegar lífstíðardóm fyrir kynferðisbrot og morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall.

Danskir fjölmiðlar segja frá því að fram hafi komið að Madsen hafi verið í á hálft annað ár að skipuleggja flóttann.

Dómarinn í málinu sagði við uppkvaðningu dómsins að Madsen hafi í flóttatilraun sinni beitt annað fólk grófu ofbeldi, burtséð frá því hverjar fyrirætlanir hans hafi verið. Hann hafi skipulagt flóttann í lengri tíma og misnotað þær undanþágur sem hann hafi fengið, meðal annars til að búa til gervibyssu og gervisprengibelti.

Madsen sagði við meðferð málsins að ástæða þess að hann fór að skipuleggja flótta hafi verið þá að á vordögum 2019 hafi fangelsismálayfirvöld takmarkað möguleika hans á að fá heimsóknir í fangelsið.

Í flóttatilrauninni tók hann fangelsissálfræðing í gíslingu og hótaði honum og fangavörðum ofbeldi. Honum tókst að komast úr út fangelsinu en var handtekinn fimm mínútum síðar, milli 400 og 500 metrum frá veggjum fangelsisins.

Saksóknari fór fram á tveggja til tveggja og hálfs árs fangelsi í málinu.

Madsen var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2018 fyrir morðið á Wall. Hann hafði boðið Wall um borð í heimasmíðaðan kafbát sinn og í siglingu að kvöldi 10. ágúst 2017. Hún skilaði sér hins vegar ekki í land og hófst þá mikil leit í Køge-flóa. Líkamspartar Wall fundust svo á hafsbotni eftir umfangsmikla leit.


Tengdar fréttir

Madsen var með gervisprengjubelti

Danski morðinginn og uppfinningamaðurinn Peter Madsen hefur verið ákærður fyrir að reyna að flýja úr fangelsi eftir flóttatilraun hans í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×