Erlent

Óttast að sjávarborð hækki hraðar en spár gera ráð fyrir

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ís sem þessi hefur bráðnað hratt undanfarna áratugi vegna loftslagsbreytinga.
Ís sem þessi hefur bráðnað hratt undanfarna áratugi vegna loftslagsbreytinga. AP/Brennan Linsley

Loftslagsvísindamenn við stofnun Niels Bohr við Kaupmannahafnarháskóla segjast telja að sjávarborð gæti hækkað um allt að 135 sentímetra fyrir næstu aldamót.

Þetta kemur fram í rannsókn sem birtist í ritinu Ocean Science og The Guardian fjallar um í dag. Spáin er öllu verri en nýjasta spá milliríkjanefndarinnar um loftslagsbreytingar (IPCC) sem telur að sjávarborð muni hækka um 110 sentímetra fyrir aldamótin.

Stenst ekki sögulegan samanburð

Samkvæmt dönsku vísindamönnunum birtist um 25 sentímetra skekkja þegar líkön IPCC voru borin saman við söguleg gögn um hækkandi sjávarborð. Það gefi til kynna að líkönin séu ekki nógu nákvæm.

„Það eru ekki góðar fréttir ef við teljum nýjustu spár ekki gera ráð fyrir nógu mikilli hækkun,“ hafði The Guardian eftir Aslak Grinsted, einum höfunda rannsóknarinnar.

Grinsted sagði líkön IPCC ekki nógu viðkvæm. „Þau standast ekki þegar við berum þau saman við raunverulega hækkun sjávarborðs í gegnum tíðina.“

Flókið púsluspil

Útreikningar IPCC eru gerðir út frá ýmis konar gögnum. Meðal annars gögnum sem tengjast íshellum, jöklum og hlýnun sjávar. Samkvæmt Grinsted eru söguleg gögn um þessa þætti hins vegar ekki alltaf nógu mikil til þess að byggja spá á þeim.

Hann nefndi sem dæmi að nærri engar upplýsingar séu til um bráðnun á suðurskautinu fyrir tíunda áratug síðustu aldar. „Við eigum betri gögn um almenna hækkun sjávarborðs,“ sagði Grinsted.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×