Handbolti

Danir vörðu heims­meistara­titilinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Niklas Landin lyftir bikarnum á loft.
Niklas Landin lyftir bikarnum á loft. EPA-EFE/KHALED ELFIQI

Danmörk er heimsmeistari í handbolta og vörðu þar með titilinn frá því á heimavelli árið 2019. Þeir höfðu betur gegn grönnum sínum í Svíþjóð, 26-24, í úrslitaleiknum í Egyptalandi í dag eftir að staðan hafi verið jöfn í hálfleik, 13-13.

Mikið jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar. Svíarnir komust í 4-3 áður en það komu tvö mörk í röð frá Dönum. Danirnir náðu svo tveggja marka forystu, 8-6, í fyrsta sinn eftir átján mínútna leik.

Svíarnir svöruðu með tveimur mörkum í röð og þeir sænsku voru komin tveimur mörkum yfir er skammt var til hálfleiks. Góður kafli Dana gerði það hins vegar að verkum að allt var jafnt er liðin gengu til búningsherbergja, 13-13.

Jafnræði var áfram með liðunum fyrstu mínúturnar í síðari hálfleik. Eftir stundarfjórðung í síðari hálfleik var allt jafnt, 20-20.

Jacob Holm átti frábæra innkomu í danska liðið á þeim tímapunkti. Hann skoraði fjögur mörk í röð og Danirnir voru komnir í 22-20 áður en Svíarnir neyddust til að taka leikhlé.

Þeir komust mest í þriggja marka forystu en þetta forskot létu þeir aldrei af hendi. Svíarnir náðu mest að minnka muninn í eitt mark en nær komust þeir ekki. Lokatölur 26-24.

Mikkel Hansen var markahæstur hjá Dönum með sjö mörk. Nikolaj Øris kom næstur með fimm mörk. Niklas Landin varði svo afar mikilvægar vörslur í markinu hjá Dönum.

Í liði Svía var það Hampus Wanne sem var markahæstur með fimm mörk. Albin Lagergren kom næstur með fjögur mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×