Fótbolti

Enginn Al­freð í tapi gegn Dort­mund og stór­sigur Bayern

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gnabry og Muller fagna einu af fjórum mörkum Bæjara í dag.
Gnabry og Muller fagna einu af fjórum mörkum Bæjara í dag. Adam Pretty/Getty Images

Alfreð Finnbogason var ekki í leikmannahópi Augsburg vegna meiðsla sem tapaði 3-1 fyrir Dortmund á útivelli í þýsku úrvalsdeildinni. Bayern Munchen vann á sama tíma 4-1 sigur á Hoffenheim.

Augsburg komust yfir á Signal Iduna leikvanginum með marki frá Andre Hahn. Erling Braut Haaland brást svo bogalistinn á vítapunktinum á 21. mínútu en Thomas Delaney jafnaði skömmu síðar.

Það var komið fram í síðari hálfleik, nánar tiltekið á 63. mínútu, er Jadon Sancho kom Dortmund yfir og tólf mínútum síðar gerði Felix Uduokhai sjálfsmark. Lokatölur 3-1.

Dortmund er í fimmta sætinu með 32 stig en Augsburg er í þrettánda sætinu með 22 stig.

Bayern Munchen er með tíu stiga forskot á toppnum, á Leipzig sem á þó leik til góða, eftir að liðið vann 4-1 sigur á Hoffenheim. Hoffenheim er í tólfta sætinu.

Jerome Boateng skoraði fyrsta markið á 32. mínútu og tíu mínútum síðar tvöfaldaði Thomas Mueller forystuna. Andrej Kramaric minnkaði muninn fyrir hlé.

Robert Lewandowski og Serge Gnabry bættu við sitt hvoru markinu í síðari hálfleik og þar við sat.

Önnur úrslit voru að Eintracht Frankfurt vann 3-1 sigur á Herthu Berlín, Union Berlin og Borussia Mönchengladbach gerðu 1-1 jafntefli sem og Werder Bremen og Schalke 04.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×