Handbolti

Ævintýri Svía heldur áfram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hampus Wanne skorar eitt af mörkum Svía í kvöld.
Hampus Wanne skorar eitt af mörkum Svía í kvöld. Slavko Midzor/Getty

Svíþjóð er komið í úrslitaleikinn á HM eftir öruggan sigur á Frökkum, 32-26. Svíarnir voru 16-13 yfir í hálfleik og leiddu í raun frá upphafi til enda. Þetta eru frábær úrslit enda Svíar með ansi vængbrotið lið á mótinu.

Svíarnir byrjuðu betur en Frakkarnir komust yfir um miðbik hálfleiksins 7-6. Þá skoruðu Svíarnir hins vegar fjögur mörk í röð og voru svo þremur mörkum yfir í hálfleik 16-13. Frakkarnir vörðu eitt skot í fyrri hálfleik og ekkert skot fyrstu 23 mínúturnar.

Sama var uppi á teningnum i síðari hálfleik. Svíarnir spiluðu ansi skynsamlegan og góðan handbolta. Frakkarnir náðu aldrei að ógna þeim af neinu viti og mest náðu Svíarnir sex marka forystu. Lokatölur 32-26 en Spánn eða Danmörk bíða í úrslitaleiknum á sunnudaginn.

Hampus Wanne var magnaður í sænska liðinu. Hann skoraði tólf mörk, þar af þrjú úr hraðaupphlaupum og fjögur úr vítum. Daniel Pettersson skoraði sex mörk og Jonathan Carlsbogard fjögur. Andreas Palicka var einnig frábær í markinu.

Hugo Descat skoraði fimm mörk og Nadim Remili skoraði fjögur. Dika Mem og Ludovic Fabregas gerðu þrjú og þeir Kentin Mahe, Nicolas CLaire, Nicolas Tournat og Luc Abalo tvö hver.

Fyrir mótið var erfitt að leggja mat á styrkleika Svía enda mættu þeir vængbrotnir til leiks. Þá er þjálfarinn, Norðmaðurinn Glenn Solberg, á sínu fyrsta stórmóti með sænska liðið en hann tók við því af Kristjáni Andréssyni í fyrra.

Listinn af leikmönnum sem eru fjarverandi hjá Svíþjóð er langur og þar eru engir smákallar: Nicklas Ekberg, Jesper Nielsen, Andreas Nilsson, Linus Arnessen, Lukas Nilsson, Mikael Appelgren og Simon Jeppsson. Þessir leikmenn eru annað hvort meiddir eða gáfu ekki kost á sér.

Þá setti kórónuveiran stórt strik í reikning Svía fyrir HM. Albin Lagergren og Anton Lindskog veiktust og fóru ekki strax til Egyptalands. Þá heltist Linus Persson úr lestinni vegna höfuðmeiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×