Tíska og hönnun

66°Norður hlýtur viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun á Hönnunarverðlaunum Íslands 2020

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
66°Norður hlaut rétt í þessu viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun á Hönnunarverðlaunum Íslands 2020.
66°Norður hlaut rétt í þessu viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun á Hönnunarverðlaunum Íslands 2020. Aldís Pálsdóttir

Hönnunarverðlaun Íslands 2020 voru afhent með rafrænum hætti rétt í þessu. Hönnunarfyrirtækið 66°Norður hlaut þar viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun á Hönnunarverðlaununum 2020.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins veitti eigendum 66°Norður, Bjarneyju Harðardóttur og Helga Rúnari Óskarssyni ásamt hönnunarteymi fyrirtækisins viðurkenninguna.

Meðfylgjandi myndband um verðlaunahafa var framleitt af Blóð Studio fyrir Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.

Klippa: Hönnunarverðlaun Íslands 2020 - 66°Norður

Rökstuðningur dómnefndar:

„Viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun árið 2020 fær 66°Norður sem stofnað var árið 1926 til að mæta lífsnauðsynlegri þörf fyrir vinnufatnað fyrir sjómenn og síðar björgunarsveitafólk. Vörumerkið hefur þróast í áranna rás og nú sem útivistarfatnaður í hæsta gæðaflokki með sterka tengingu við arfleið fyrirtækisins og í takti við strauma tískunnar.

66 Norður

Sérstaða 66°Norður er án efa fagmennska sem einkennir vörumerkið og hæfileiki til að lesa í samtímann hvort sem verið er að hanna tæknilegan útivistarfatnað, markaðsefni eða í tilraunakenndu samstarfi við íslenska og erlenda hönnuði.

66°Norður er skýrt dæmi um það þegar góð hönnun er leiðandi afl í vexti og þróun fyrirtækis, en um 15 manns starfa í hönnunarteymi þess.“

Besta fjárfesting í hönnun er viðurkenning sem veitt er fyrirtækjum sem hafa hönnun og arkitektúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. Öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi koma til greina.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins veitti eigendum 66°Norður, Bjarneyju Harðardóttur og Helga Rúnari Óskarssyni ásamt hönnunarteymi fyrirtækisins viðurkenninguna.Aldís Pálsdóttir

Hvatning til fyrirtækja

Það var Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sem afhenti viðurkenninguna og kom inn á það í ræðu sinni að með „þessari viðurkenningu er ætlunin að draga fram mikilvægi þess að hönnun sé höfð að leiðarljósi frá upphafi verka með það að markmiði að auka verðmætasköpun og styrkja samkeppnishæfni. Um leið er viðurkenningin hvatning til fyrirtækja að nýta hönnun til að ná forskoti í samkeppni. Við valið er horft til þess að hönnunin sé einstök og framúrskarandi.“

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.Aldís Pálsdóttir

Fjárfestar trúa á íslenska hönnun

Helgi Rúnar Óskarsson og Bjarney Harðardóttir, eigendur 66°Norður tóku við viðurkenningunni og í ræðu sinni kom Helgi Rúnar inn á þá miklu arfleifð sem fyrirtækið sækir í í sinni hönnun og þau tækifæri sem felast í skapandi greinum á Íslandi.

„Við lítum svo á að það sé mikið tækifæri til að fá fjárfestingu erlendis frá í skapandi greinar. Fjárfestar trúa á íslenska hönnun og íslenskt handverk.“

Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt í fyrsta sinn árið 2014 og varpa ljósi á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda er vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast. Verðlaunin beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.

66 Norður

Besta fjárfesting í hönnun er viðurkenning sem veitt var í fyrsta sinn 2015. Fyrirtæki sem eiga þess kost að hljóta viðurkenninguna Besta fjárfesting í hönnun hafa hönnun og arkitektúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. Öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi koma til greina.

Í dómnefnd Hönnunarverðlaun Íslands 2020 sátu: 

  • Sigríður Sigurjónsdóttir formaður, Hönnunarsafn Íslands
  • Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, LHÍ
  • Sigrún Unnarsdóttir, fatahönnuður MH&A
  • Þorleifur Gíslason, grafískur hönnuður MH&A
  • Paul Bennett, hönnunarstjóri IDEO, MH&A
  • Margrét Kristín Sigurðardóttir, SI
  • Hörður Lárusson, grafískur hönnuður MH&A
  • Sigrún Birgisdóttir, arkitekt, LHÍ

Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Landsvirkjun, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.