Handbolti

Spánn, Frakkland og Sví­þjóð í undan­úr­slit

Anton Ingi Leifsson skrifar
Spánverjarnir hafa ekki veirð sannfærandi það sem af er en eru komnir í undanúrslit.
Spánverjarnir hafa ekki veirð sannfærandi það sem af er en eru komnir í undanúrslit. EPA-EFE/Khaled Elfiqi

Spánn, Frakkland og Svíþjóð tryggðu sér þrjú síðustu sætin í undanúrslitum HM í handbolta sem fer fram í Egyptalandi. Fyrr í kvöld hafði Danmörk tryggt sér fyrsta sætið í undanúrslitunum eftir ótrúlegan leik gegn heimamönnum.

Frakkar lentu í vandræðum, eins og í flestum leikjum mótsins til þessa, en þeir voru 14-12 undir gegn Ungverjum í hálfleik. Allt var jafnt, 30-30, eftir venjulegan leiktíma og þurfti að framlengja. Þar voru Frakkarnir sterkari og unnu 35-33.

Michael Guigou skoraði sex mörk fyrir Frakka en Bence Banhidi gerði sex fyrir Ungverja.

Það var mikið skorað í fyrri hálfleik er Spánn hafði betur gegn Noregi, 31-26. Spánverjar voru 21-15 yfir er flautað var til hálfleiks en Sander Sagosen, lykilmaður Norðmanna, fór meiddur af velli í fyrri hálfleik. Það var reiðarslag Norðmanna.

Alex Dujshebaev var frábær í spænska liðinu. Hann skoraði átta mörk en Ruben Marchan Criado bætti við sex mörkum. Magnus Jondal skoraði mest í norska liðinu eða sex mörk talsins.

Svíþjóð lenti svo í engum vandræðum með Katar og fóru nánast áreynslulaust inn í undanúrslitin. Lokatölur 35-23. Svíarnir voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 14-10, og stigu enn frekar á bensíngjöfina í síðari hálfleik og keyrðu fyrir Katar.

Lucas Pellas og Valter Chrintz voru frábær í liði Svía. Hvor skoraði átta mörk. Frankis Marzo skoraði fimm mörk fyrir Katar.

Danir mæta Spánverjum í undanúrslitunum á föstudagskvöldið en í hinum leiknum mætast Frakkland og Svíþjóð. Úrslitaleikurinn og leikurinn um þriðja sætið er svo á sunnudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×