Handbolti

Aðeins þrír skoruðu fleiri en Bjarki

Sindri Sverrisson skrifar
Bjarki Már Elísson fagnar einu af mörkum sínum á HM í Egyptalandi.
Bjarki Már Elísson fagnar einu af mörkum sínum á HM í Egyptalandi. EPA-EFE/Khaled Elfiqi

Bjarki Már Elísson er á meðal markahæstu manna á HM í handbolta í Egyptalandi nú þegar komið er að átta liða úrslitum mótsins.

Ísland er úr leik og Bjarki getur því ekki bætti við fleiri mörkum en þeim 38 sem hann skoraði í sex leikjum á HM.  Bjarki nýtti 73% skota sinna, eða 38 af 52, og 18 marka hans komu af vítalínunni en átta úr hraðaupphlaupum, samkvæmt heimasíðu mótsins.

Baráttan um markakóngstitilinn stendur nú helst á milli Frankis Carol frá Katar og Sander Sagosen frá Noregi. Carol er með 53 mörk, þar af ekkert af vítalínunni, og Sagosen með 50. Norðmaðurinn er auk þess skráður með 37 stoðsendingar á heimasíðu mótsins og hefur því komið að 87 af 193 mörkum Noregs til þessa.

Átta liða úrslitin í dag:

  • Spánn - Noregur
  • Danmörk - Egyptaland
  • Frakkland - Ungverjaland
  • Svíþjóð - Katar

Auk Carol og Sagosen er Svisslendingurinn Andy Schmid, sem reyndist Íslandi svo erfiður, fyrir ofan Bjarka á lista markaskorara með 44 mörk. Bjarki er svo fjórði markahæstur af þeim sem léku í milliriðlakeppninni. 

Reyndar eru svo Erwin Feuchtmann frá Síle með 43 mörk og Kim Jinyoung frá Suður-Kóreu með 39 mörk en þeirra lið komust ekki í milliriðla heldur leika í Forsetabikarnum svokallaða, gegn öðrum af lökustu liðum mótsins.

Ólafur Guðmundsson var næstmarkahæstur Íslands á HM með 26 mörk og Gísli Þorgeir Kristjánsson þriðji með 18 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×