Handbolti

Dagur vann Halldór Jóhann í lokaleik liða þeirra á HM í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson stýrði Japan til sigurs í lokaleik liðsins á HM í Egyptalandi.
Dagur Sigurðsson stýrði Japan til sigurs í lokaleik liðsins á HM í Egyptalandi. EPA-EFE/Petr David Josek

Japanar tryggðu sér í dag fimmta sætið í sínum milliriðli með fjögurra marka sigri á Barein í lokaumferð milliriðils tvö á heimsmeistaramótinu í handbolta í Egyptalandi.

Japan vann Barein 29-25 og fékk þar með þrjú stig í milliriðlinum. Barein átti möguleika á að komast upp fyrir Japan með sigri.

Tatsuki Yoshino átti mjög flottan leik með japanska liðinu og skoraði níu mörk úr tíu skotum en hann var valinn maður leiksins. Jin Watanabe skoraði átta mörk úr níu skotum.

Hann og Jin Watanabe nýttu báðir öll sex skotin sín í fyrri hálfleiknum þar sem Japanar skoruðu 19 mörk úr aðeins 22 skotum og náðu sjö marka forystu í hálfleik, 19-12.

Japanar voru með góða forystu nær allan seinni hálfleikinn en Barein minnkaði muninn í fjögur mörk á lokakaflanum.

Halldór Jóhann Sigfússon og lærisveinar hans hjá Barein töpuðu þar með öllum þremur leikjum sínum í milliriðlinum og unnu aðeins einn af sex leikjum sínum.

Dagur Sigurðsson þjálfar Japana sem unnu tvo leiki á mótinu auk þess að ná jafntefli á móti Króatíu. Sigurinn í dag tryggir liðinu nítjánda sætið á heimsmeistaramótinu. Það er besti árangur japanska liðsins í heilan áratug eða síðan náði sextánda sæti á HM 2011.

Brasilía tryggði sér fimmta sætið í sínum milliriðli á sama tíma með tuttugu marka stórsigri á Úrúgvæ, 37-17. Brasilíumenn komust líka upp fyrir Japan og í átjánda sæti HM með því að vinna svona stóran sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×