Handbolti

Ýmir var bestur í íslenska liðinu á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ýmir Örn Gíslason stoppar hér Norðmanninn Christian O'Sullivan í leik Íslands og Noregs í gærkvöldi.
Ýmir Örn Gíslason stoppar hér Norðmanninn Christian O'Sullivan í leik Íslands og Noregs í gærkvöldi. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Ýmir Örn Gíslason var besti leikmaður íslenska handboltalandsliðsins samkvæmt meðaleinkunn strákanna okkar í einkunnagjöf Vísis á heimsmeistaramótinu í handbolta.

Íslenska handboltalandsliðið hefur lokið keppni á þessu heimsmeistaramóti og það er því við hæfi að taka saman frammistöðumat leikmanna liðsins.

Við höfum nú reiknað meðaleinkunn leikmanna Íslands á mótinu og þar kemur í ljós að Ýmir Örn Gíslason var með frábæra frammistöðu að meðaltali. Ýmir Örn fékk 5,0 í meðaleinkunn.

Varnarleikurinn var aðall íslenska liðsins á HM í Egyptalandi og þar fór fyrir liðinu Valsmaðurinn öflugi. Þetta var fjórða stórmót Ýmis en hlutverk hans hefur vaxið á hverju móti.

Íþróttadeild Vísis gaf leikmönnum og þjálfurum einkunn á bilinu 1-6 með umsögn eftir hvern einasta leik íslenska liðsins á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi.

Ýmir Örn Gíslason var ekki meðal fyrirliðabandið í leikjunum sex en augljóst er að hann er orðinn einn aðalleiðtoginn í hópnum þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára gamall. Ýmir hélt saman íslensku vörninni og fór fyrir íslensku strákunum með smitandi krafti og dugnaði.

Ýmir fékk sexu í einum leik og fjóra í einum leik en annars var hann með fimmu í einkunn í hinum fjórum leikjunum. Ýmir var því ekki aðeins með frábæra meðaleinkunn heldur sýndi hann mikinn stöðugleika.

Í öðru sæti er markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson sem átti þrjá mjög góða leiki á mótinu og naut líka góðs af því að spila ekki nógu lengi í lokaleiknum til að fá einkunn en þar varði Björgvin ekki skot.

Jafnir í þriðja til fjóra sæti eru síðan FH-ingarnir Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ólafur Guðmundsson sem stóðu sig báðir mun betur en flestir höfðu reiknað með.

Gísli Þorgeir var að koma aftur inn í liðið eftir langvinn meiðsli og leit ekki vel út í leikjunum fyrir mót. Hann mætti hins vegar af krafti á sjálft mótið og stýrði sóknarleik íslenska liðsins. Gísli tók hlutverki að sér að fullu þegar Janus Daði Smárason datt út.

Ólafur fékk varla að koma inn á völlinn í leikjunum í undankeppninni og sömu sögu var að segja af fyrsta leiknum sem tapaðist á móti Portúgal. Ólafur nýtt hins vegar fyrsta alvöru tækifærið í leiknum á móti Alsír og skilaði sínu þegar hann fékk að spila hjá Guðmundi.

Besta meðaleinkunn íslensku landsliðsmannanna á HM 2021:

  • 1. Ýmir Örn Gíslason 5,0
  • 2. Björgvin Páll Gústavsson 4,5
  • 3. Ólafur Guðmundsson 4,3
  • 3. Gísli Þorgeir Kristjánsson 4,3
  • 5. Elliði Snær Viðarsson 4,17
  • 6. Bjarki Már Elísson 4
  • 7. Sigvaldi Guðjónsson 3,83
  • 8. Viggó Kristjánsson 3,8
  • 8. Elvar Örn Jónsson 3,8
  • 10. Alexander Petersson 3,75
  • 11. Arnar Freyr Arnarsson 3,5
  • 11. Oddur Grétarsson 3,5
  • 13. Viktor Gísli Hallgrímsson 3,3
  • 14. Arnór Þór Gunnarsson 3
  • 14. Magnús Óli Magnússon 3
  • 16. Ómar Ingi Magnússon 2,75
  • 17. Kristján Örn Kristjánsson 2,7
  • 18. Ágúst Elí Björgvinsson 2,4
  • 19. Kári Kristjánsson 2,0
  • 19. Janus Daði Smárason 2,0



Fleiri fréttir

Sjá meira


×