Handbolti

„Sáttur og stoltur að vera partur af þessu liði“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gísli átti virkilega góðan leik í kvöld.
Gísli átti virkilega góðan leik í kvöld. Epa/Anne-Christine Poujoulat

„Við spiluðum mjög góða sókn mest allan leikinn. Við fáum frábært færi nánast hverri sókn en eins góð vörnin hefur verið þá klikkar hún dálítið í dag,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður Íslands, eftir tapið gegn Norðmönnum á HM í Egyptalandi í kvöld.

Gísli var til viðtals við RÚV að leiknum loknum í Egyptalandi.

„Mér fannst við spila vel. Eins og Guðmundur sagði þá er þetta bara stöngin út. Það hefur verið þannig gegn stóru liðunum en mér fannst við taka eitt skref í rétta átt og það skiptir máli fyrir þetta lið.“

Norðmenn voru duglegir að refsa íslenska liðinu í hröðum upphlaupum sem og seinni bylgju.

„Það er ótrúlegt hvað þeir geta hlaupið. Þeir hafa sýnt það hversu sterkir þeir eru í seinni bylgjunni og hraðaupphlaupunum. Það vita allir hvað þeir eru góðir en það er erfitt að verjast þessum mönnum.“

Gísli átti skínandi leik í dag og er stoltur að vera hluti af liðinu. Hann sér framfarir á íslenska liðinu.

„Þótt að við séum að tapa á móti öllum þessum liðum; síðustu leikjunum, þá finnst mér gegn Frökkum, Portúgal og Norðmönnum að við erum inn í leikjunum. Við erum að spila lengst af vel og erum að stíga í rétta átt sem liðsheild, lið og karakterar. Ég er sáttur og stoltur að vera partur af þessu liði. Ég er þakklátur að vera þáttur af þessari þróun í þessu landsliði.“

Ísland fékk skell gegn Norðmönnum á EM í fyrra og Gísli segir mikinn mun á íslenska liðinu, frá síðasta ári.

„Það er himinn og haf á milli leikjanna gegn Norðmönnum en það vantar líka alveg helling af mönnum í okkar lið. Við erum að spila miklu, miklu betur í samanburði við EM á síðasta ári og þetta er jafn leikur fram á 57. mínútu. Við klúðrum á opnum færum og það er það sem fer með alla þrjá leikina. Ef maður ætlar að berjast við þá bestu þá þarf maður að klára dauðafærin. Það kemur að endanum,“ sagði Gísli að lokum í samtali við RÚV.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×