Handbolti

Sigldu í Strand í St. Gallen

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kjetil Strand reynir að stöðva Guðjón Val Sigurðsson í frægum leik Noregs og Íslands á EM 2006.
Kjetil Strand reynir að stöðva Guðjón Val Sigurðsson í frægum leik Noregs og Íslands á EM 2006. epa/REGINA KUEHNE

Ísland mætir Noregi í þriðja og síðasta leik sínum í milliriðli III á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í dag. Þetta er jafnframt lokaleikur Íslendinga á HM. Leikurinn hefst klukkan 17:00 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.

Ísland og Noregur hafa átta sinnum mæst á stórmótum og er tölfræðin Íslendingum í hag. Ísland hefur unnið sex leiki og Noregur tvo.

Hér fyrir neðan má lesa um fjóra eftirminnilega leiki Íslands og Noregs á stórmótum.

Ísland 32-28 Noregur, HM 1997

Ótrúlegt en satt mættust Ísland og Noregur ekki á stórmóti fyrr en 1997, í sextán liða úrslitum á HM í Kumamoto.

Ísland var tveimur mörkum undir eftir fyrri hálfleikinn, 13-15, en náði undirtökunum um miðjan seinni hálfleik og landaði fjögurra marka sigri, 32-28.

Róbert Julian Duranona, sem var á sínu fyrsta stórmóti, lék einn sinn besta landsleik og skoraði sex mörk. Eftir leikinn sagði norskur fréttamaður, sem lýsti leiknum á TV 2, að Norðmenn hefðu tapað fyrir Kúbumanni en ekki Íslendingum.

Ísland endaði að lokum í 5. sæti á HM 1997 sem er enn besti árangur Íslands á heimsmeistaramóti.

Mörk Íslands: Geir Sveinsson 7, Róbert Julian Duranona 7, Patrekur Jóhannesson 6, Valdimar Grímsson 5/1, Gústaf Bjarnason 4, Ólafur Stefánsson 3, Dagur Sigurðsson 1.

Ísland 33-36 Noregur, EM 2006

Því miður er erfitt að gleyma frammistöðu Norðmannsins Kjetils Strand gegn Íslandi í milliriðli á EM 2006 í Sviss.

Strand leit út eins og besti leikmaður heims í leiknum og skoraði hvorki fleiri né færri en nítján mörk. Aldrei hefur leikmaður norska landsliðsins skorað jafn mörg mörk í einum og sama leiknum. Strand skoraði meðal annars níu af fyrstu ellefu mörkum Noregs.

Mörkin nítján skoraði Strand þrátt fyrir að vera rétthent skytta sem spilaði hægra megin fyrir utan. Það breytti engu og hann skoraði nánast úr hverju einasta skoti sem hann tók.

Ísland var yfir í hálfleik, 16-14, en bensínið var búið undir lokin enda hafði íslenska liðið orðið fyrir miklum skakkaföllum á EM. Noregur vann að lokum með þriggja marka mun, 33-36.

Mörk Íslands: Ólafur Stefánsson 9/4, Guðjón Valur Sigurðsson 6, Róbert Gunnarsson 5, Snorri Steinn Guðjónsson 5, Ásgeir Örn Hallgrímsson 4, Sigfús Sigurðsson 2, Heimir Örn Árnason 1, Arnór Atlason 1.

Ísland 29-22 Noregur, HM 2011

Ísland kláraði fullkomna riðlakeppni á HM 2011 í Svíþjóð með því að vinna Noreg með sjö marka mun, 29-22.

Mikil harka var í leiknum og jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik. Staðan að honum loknum var jöfn, 12-12. Í seinni hálfleiknum skelltu Íslendingar í lás í vörninni og héldu Norðmönnum í aðeins tíu mörkum.

Björgvin Páll Gústavsson átti einn sinn besta landsleik og varði helming þeirra skot sem hann fékk á sig. Snorri Steinn Guðjónsson skoraði sjö mörk og Alexander Petersson fimm en sá síðarnefndi var valinn í úrvalslið mótsins.

Því miður reyndist þetta síðasti sigur Íslands á HM 2011 og niðurstaðan varð 6. sæti sem er samt næstbesti árangur íslenska liðsins á heimsmeistaramóti.

Mörk Íslands: Snorri Steinn Guðjónsson 7/3, Alexander Petersson 5, Aron Pálmarsson 4, Þórir Ólafsson 3/1, Guðjón Valur Sigurðsson 3, Ólafur Stefánsson 3, Róbert Gunnarsson 2, Ingimundur Ingimundarson 1, Arnór Atlason 1.

Ísland 31-26 Noregur, EM 2014

Á síðasta virkilega góða stórmóti Íslendinga, EM 2014, unnu þeir Norðmenn með fimm marka mun í fyrsta leik sínum í A-riðli, 31-26. Þetta var fjórði sigur Íslands á Noregi á stórmóti í röð.

Guðjón Valur Sigurðsson fór mikinn í leiknum og skoraði níu mörk. Hann var næstmarkahæsti leikmaður EM 2014 og valinn í úrvalslið mótsins. Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði sex mörk eftir erfiða byrjun en EM var hans besta stórmót á ferlinum.

Íslendingar lögðu grunninn að sigrinum með frábærum fyrri hálfleik þar sem þeir skoruðu sextán mörk gegn tíu þrátt fyrir að Aron Pálmarsson hafi meiðst snemma leiks. Norðmenn náðu aldrei að minnka muninn í minna en þrjú mörk í seinni hálfleik og sigur Íslendinga var aldrei í hættu.

Ísland endaði að lokum í 5. sæti á EM 2014 eftir sigur á Póllandi, 28-27, í lokaleik sínum á mótinu.

Mörk Íslands: Guðjón Valur Sigurðsson 9/2, Ásgeir Örn Hallgrímsson 6, Rúnar Kárason 4, Arnór Atlason 3, Þórir Ólafsson 3, Snorri Steinn Guðjónsson 3/2, Aron Pálmarsson 2, Vignir Svavarsson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×