Handbolti

Mögu­leikar læri­sveina Al­freðs nánast úr sögunni eftir tap gegn Spán­verjum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Þýskalands voru vægast sagt bugaðir í leikslok.
Leikmenn Þýskalands voru vægast sagt bugaðir í leikslok. EPA-EFE/Petr David Josek

Þýskaland tapaði með fimm marka mun gegn Spáni í milliriðli á HM í handbolta í kvöld. Lokatölur 33-28 og möguleiki Þýskalands á að komast upp úr milliriðli eitt lítill sem enginn eftir tap kvöldsins.

Leikur kvöldsins var vægast sagt sveiflukenndur. Spánverjar voru mun sterkari í upphafi leiks og leiddu á endanum með þremur mörkum í hálfleik, staðan þá 16-13. Alfreð Gíslason – þjálfari Þýskalands – hefur látið sína menn heyra það í hálfleik en þýska liðið sneri taflinu við í síðari hálfleik.

Staðan var óvænt orðin 25-22 Þjóðverjum í vil þegar allt hrökk í baklás og Spánn skoraði sex mörk í röð. Fór það svo að Spánn vann fimm marka sigur, 33-28. Angel Fernandez Perez var markahæstur í spænska liðinu með sex mörk. Timo Kastening gerði sjö í liði Þýskalands.

Sigurinn þýðir að Spánn er með fimm stig í öðru sæti riðilsins en Ungverjaland er á toppi riðilsins með sex. Þýskaland er aðeins með tvö stig.

Í hinum leik kvöldsins vann Danmörk níu marka sigur á Katar í milliriðli tvö, lokatölur 32-23. Mikkel Hansen skoraði átta mörk í liði Dana. Danir eru á toppi riðilsins með fullt hús stiga á meðan Katar er í 4. sæti með tvö stig. 

Efstu tvö lið hvers milliriðils fara áfram í 8-liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×