Viðskipti innlent

Van­skil aldrei verið minni þrátt fyrir efnahagsáfall

Eiður Þór Árnason skrifar
Innlend verslun og kortavelta jókst á síðasta ári þrátt fyrir áhrif heimsfaraldurs.
Innlend verslun og kortavelta jókst á síðasta ári þrátt fyrir áhrif heimsfaraldurs. Vísir/vilhelm

Vanskil einstaklinga og fyrirtækja hafa aldrei verið minni en á árinu 2020 samkvæmt tölum úr vanskilaskrá Creditinfo. Telur fyrirtækið líklegt að greiðslufrestir frá lánastofnunum og fyrirtækjum sem veittir voru vegna áhrifa heimsfaraldurs COVID-19 eigi stóran þátt í þessari þróun.

Hlutfall fyrirtækja sem voru ný á vanskilaskrá lækkaði úr 4,8% á árinu 2019 í 3,3% á síðasta ári. Á sama tíma fór hlutfall einstaklinga sem fóru inn á vanskilaskrá úr 1,93% í 1,56%. Þetta kemur fram í greiningu Creditinfo.

Veiting greiðslufrests var hluti af aðgerðum stjórnvalda og lánastofnana til að koma í veg fyrir að einstaklingar og fyrirtæki myndu lenda í fjárhagslegum erfiðleikum vegna tekjufalls og annarra efnahagslegra áhrifa faraldursins.

„Flestar lánastofnanir hafa veitt greiðslufresti eða önnur úrræði til einstaklinga og fyrirtækja sem hafa séð fram á tekjumissi vegna faraldursins og það veldur því óhjákvæmilega að færri skráningar verða hjá einstaklingum og fyrirtækjum á vanskilaskrá,“ segir Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður Greiningar og ráðgjafar hjá Creditinfo.

Haft er eftir honum á vef fyrirtækisins að faraldurinn hafi einnig haft í för með sér breyttar neysluvenjur einstaklinga með fækkun utanlandsferða. Mátti bæði sjá aukningu í framkvæmdum á heimilum á síðasta ári og aukningu í kortaveltu, þrátt fyrir ástandið.

Hlutabótaleiðin, lækkun meginvaxta Seðlabankans og brúarlán til fyrirtækja hafi einnig mildað það efnahagslega áfall sem hlaust af faraldrinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×