Handbolti

„Þvílíka fyrirmyndin fyrir alla strákana“

Sindri Sverrisson skrifar
Alexander Petersson sækir á vörn Portúgals á HM.
Alexander Petersson sækir á vörn Portúgals á HM. EPA-EFE/Khaled Elfiqi

Bjarni Fritzson lofaði Alexander Petersson, fyrrverandi samherja sinn í landsliðinu, í hástert í HM-útgáfu af Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport.

Alexander, sem verður 41 árs í sumar, lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir Ísland árið 2005 eða fyrir 16 árum. Hann hefur látið til sín taka á HM í Egyptalandi þar sem framundan er slagur við Sviss í dag kl. 14.30.

„Lexi spilar miklar vörn og gerir það vel. Mér finnst svo flott að sjá hann, svona fullorðinn, reynslumikinn stjörnuleikmann, sætta sig við sitt hlutverk og gera það bara frábærlega. Það sýnir bara hvað hann er mikill fagmaður og liðsmaður,“ sagði Bjarni, hrifinn af því hve greinilegt stolt Alexanders væri enn af því að spila fyrir landsliðið og fórnfýsin eftir því.

„Mér finnst það svo geggjað. Þvílíka fyrirmyndin fyrir alla strákana sem eru með honum inni á vellinum. Það er það sem stendur upp úr fyrir mér. Við vitum allir hvað hann getur. Hann er náttúrulega súper leikmaður. Með algjör gæði. En að fórna sér í þetta hlutverk, fara til Egyptalands… hann er bara svo stoltur af að spila fyrir landsliðið. Mér finnst það svo kúl,“ sagði Bjarni.

Theodór Ingi Pálmason tók í sama streng og var ánægður með framlag Alexanders:

„Þegar Lexi hefur komið inn hefur hann komið með kraft í liðið, bæði varnarlega og sóknarlega. Þrátt fyrir að vera fertugur gerir hann allt af svo miklum krafti og það er ótrúlega gaman að fylgjast með því,“ sagði Theodór á meðan að sérfræðingarnir fylgdust með myndum af Alexander stela boltanum af sóknarmönnum andstæðinganna, en innslagið má sjá hér að neðan.

„Hann er þjófóttur, gerði þetta nokkrum sinnum líka á móti Portúgal og svo gegn Alsír. Hann er bara fyrirbæri þessi maður,“ sagði Theodór.

Klippa: Seinni bylgjan - Alexander magnaður

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.


Tengdar fréttir

Gummi lá yfir gamla lærisveininum í alla nótt

„Andy Schmid er náttúrulega frábær leikmaður og einn sá besti sem ég hef nokkurn tímann þjálfað. Ég veit alveg hvað hann getur og allir leikmennirnir mínir líka. Það verður hörkuverkefni að eiga við hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×