Körfubolti

Demanturinn í ÍR sem er að verða uppáhalds leikmaður Benna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
ÍR-ingar eru til alls líklegir í Domino's deild karla.
ÍR-ingar eru til alls líklegir í Domino's deild karla. vísir/bára

Benedikt Guðmundsson er að eignast nýjan uppáhalds leikmann í Domino's deild karla. Sá heitir Everage Richardson og leikur með ÍR.

Þrátt fyrir að vera 35 ára er Richardson á sínu fyrsta tímabili í Domino's deildinni. Hann hefur heldur betur farið vel af stað með ÍR og er með 22,3 stig, 9,3 fráköst og 5,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Í sigrinum á Hetti á sunnudaginn var Richardson með 24 stig, þrettán fráköst, fimm stoðsendingar, stal boltanum fimm sinnum og varði eitt skot.

„Þetta er verða minn uppáhalds leikmaður. Þetta er svo fallegt og virðulegt allt saman,“ sagði Benedikt í Domino's Körfuboltakvöldi í gær.

Kjartan Atli Kjartansson rifjaði upp þegar þeir Benedikt gerðu sér ferð í íþróttahúsið í Fagralundi í Kópavogi til að horfa á Richardson spila með Gnúpverjum.

„Mann grunaði þegar maður kíkti á hann í Fagralundi, eina skiptið sem ég hef komið inn í það íþróttahús, að hann væri að skora svona mikið því hann væri gráðugur. En svo fór maður að fylgjast með honum og þetta er svo fagmannlega gert. Hann tekur ekki neitt frá neinum og bara skorar og skorar, gefur boltann og býr til. Þetta er algjör demantur,“ sagði Benedikt.

Klippa: Domino's Körfuboltakvöld - Demanturinn Everage Richardson

Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×