Skoðun

Er framleiðsla búvara markmið landbúnaðarstefnunnar?

Erna Bjarnadóttir skrifar

Umræða um fyrirkomulag stuðnings við landbúnað á Íslandi verður á köflum lífleg og sýnist eðlilega sitt hverjum. Telja sumir að heppilegt væri að taka enn frekari skref í lækkun tolla á landbúnaðarvörur. Þess í stað verði beinum styrkjum sem ekki tengjast framleiðslu beitt í auknum mæli. Má í því sambandi t.d. vísa til Félags atvinnurekenda en framkvæmdastjóri þess sagði í grein á Kjarnanum, sjá hér https://kjarninn.is/skodun/2021-01-07-tollar-vernd-og-vorn/, nýverið: „FA hefur hins vegar stutt að bændum sé hjálpað með beinum styrkjum…“ Ýmsir hafa tekið í svipaðan streng.

Nú er ekki alltaf auðvelt að henda reiður á hvert þessi hópur ætlar að stefna með íslenskan landbúnað. Þannig segir t.d. í áður tilvitnaðri grein m.a.: „FA er sömu­leiðis þeirrar skoð­unar að hefð­bund­inn land­bún­aður á Íslandi eigi að njóta stuðn­ings, en að hann eigi að vera … ekki fram­leiðslu­tengdur og mark­aðs­trufl­andi, heldur fremur tengdur við t.d. ræktun og verndun lands, líf­ræna ræktun og fjár­fest­ingu, en bændur fram­leiði síðan það sem þeim sýn­ist án afskipta rík­is­ins.“

Markaðsverð verður að nægja fyrir breytilegum kostnaði

Eitt það fyrsta sem kennt er í hagfræði eru aðferðir við að reikna út framleiðslukostnað, skilgreina fastan kostnað og breytilegan kostnað og skilja hvernig verð á markaði ákvarðast á grundvelli annars vegar framleiðslukostnaðar og hins vegar eftirspurnar. Nú er það of mikið í fang færst að skrifa stutta grein sem rúmar byrjendanámskeið í hagfræði en niðurstaða hennar er að framleiðendur eru ekki tilbúnir til að leggja á sig fyrirhöfnina við að framleiða nema markaðsverð vörunnar nemi að minnsta kosti breytilegum kostnaði á framleidda einingu (að launum inniföldum). Til lengri tíma verður markaðsverðið vitaskuld að duga bæði fyrir breytilegum og föstum kostnaði.

Með öðrum orðum beinir styrkir sem bændur geta fengið án þess að framleiða halda ekki uppi framleiðsluvilja ef sölutekjur vörunnar standa ekki að lágmarki undir breytilegum kostnaði.

Hvað gerir ESB?

ESB greiðir vissulega stóran hluta stuðnings síns til bænda í formi styrkja sem ekki eru skilyrtir framleiðslu tiltekinna afurða. Af hverju framleiða þá bændur innan ESB landbúnaðarafurðir? Jú af því að verð á þeim er nógu hátt (þ.e. yfir breytilegum einingarkostnaði) til að það borgi sig að standa í því.

Og hvernig stendur á því að verðið er nógu hátt? Jú það gerist m.a. af því að ESB leggur tolla á innfluttar vörur. Samkvæmt gagnagrunni Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (World Trade Organisation, WTO) leggur ESB tolla á 2.099 tollskrárnúmer sem teljast til landbúnaðarvara samkvæmt „bestu kjarareglu“ WTO (Most Favoured Nation, MFN). Af þeim löndum sem Ísland ber sig helst saman við er aðeins Sviss með fleiri vörur á slíkum lista eða 2.144. Meðal tollur sem ESB leggur á nemur 11,4%. Sem dæmi má taka að ESB leggur tolla á allar vörur sem falla undir mjólkurvörukaflann í samantekt WTO. Það skyldi þó aldrei vera þannig að tollverndin sé stillt af þannig að verð til bænda verði að minnsta kosti nógu hátt til að framleiðsluviljinn haldist, þ.e. markaðsverðið sé hærra en breytilegur einingarkostnaður. Af viðbrögðum ESB t.d. við COVID-19 faraldrinum er augljóst að þar á bæ eru skýr framleiðslumarkmið. Þegar verð til framleiðenda lækkar er umsvifalaust gripið til aðgerða til að sporna við því.

Beinir styrkir eru varasamir

Í þeim umræðum sem vitnað var til í upphafi þessarar greinar, þ.e. að upplagt sé að veita beina styrki í stað tollverndar er oft tekið sem dæmi að þetta hafi verið gert með góðum árangri í garðyrkju, þ.e. tómata-, agúrku- og paprikuframleiðslu. Hér má t.d. vísa til orða framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, sjá nánar hér https://www.visir.is/g/2013844906d, árið 2013. Þar sagði hann m.a. „Dæmin sem við höfum úr garðyrkjunni sýna það mætavel að íslenskur landbúnaður þarf ekkert að óttast að mæta samkeppni.“ Allir þeir sem þekkja til fyrirkomulags á beinum greiðslum í garðyrkju á Íslandi vita að þeir styrkir eru greiddir á framleitt magn og framleiðendur vita nokkurn veginn (þó ekki nákvæmlega) hver greiðsla á framleitt kg verður í upphafi árs. Þessir styrkir hafa því áhrif á ákvarðanir bænda um hvaða vöru og hve mikið þeir framleiða, ólíkt styrkjum sem greiddir eru óháð framleiðslu. Slíkir styrkir leiða ekki einir og sér til framleiðslu landbúnaðarvara.

Ef taka ætti upp beina styrki sem ekki eru greiddir á framleitt kg, t.d. til nautakjötsframleiðenda, en markmiðið væri engu að síður að tryggja að nautakjötsframleiðsla væri áfram stunduð í landinu, yrði með einhverjum hætti jafnframt að tryggja að verð til framleiðenda yrði hærra en sem nemur breytilegum kostnaði + laun á framleitt kg. Tollvernd á nautakjöti og öðru kjöti er ein leið til þess. Að baki þessari niðurstöðu eru einföld hagfræðilögmál.

Höfundur er hagfræðingur og verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×