Sport

Sýndu slímuga krakkaútgáfu af einum NFL-leiknum um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snertimörkin í leik Saints og Bears voru svolítið slímug á Nickelodeon stöðinni í gær.
Snertimörkin í leik Saints og Bears voru svolítið slímug á Nickelodeon stöðinni í gær. Twitter/@Saints

NFL-deildin er greinilega að reyna að fá börnin í Bandaríkjunum til að hafa meiri áhuga á ameríska fótboltanum ef marka má mjög sérstaka útsendingu í gær.

Úrslitakeppni ameríska fótboltans var áberandi í bandarísku íþróttalífi um helgina þegar úrslitakeppni NFL-deildarinnar fór af stað.

Stóru stöðvarnar í Bandaríkjunum eins og CBS, NBC og Fox keppast um að sýna leikina en að þessu sinni var NFL-leikur sýndur líka á barnastöðinni Nickelodeon.

Leikur New Orleans Saints og Chicago Bears var sýndur hér á Stöð 2 Sport en þar var um að ræða útsendinguna frá CBS. Á sama tíma var einnig sýnd sérstök barnaútgáfa á Nickelodeon stöðinni.

Nickelodeon var með sína eigin lýsendur og þar á bæ fóru menn líka nýjar leiðir í framsetningu.

Það vakti þannig sérstaklega athygli á samfélagsmiðlum hvernig sjónvarpsgrafíkin var þegar New Orleans Saints skoraði sitt fyrsta snertimark í leiknum. Það má sjá það hér fyrir neðan.

Michael Thomas skoraði þá snertimark eftir sendingu frá Drew Brees og í kjölfarið fylltist allt af slími á skjáum krakkanna. Þetta gerðist alltaf þegar snertimark var skorað í leiknum.

Upplýsingar um leikmennina sjálfa voru líka látnar höfða sérstaklega til krakkanna eins og hver væri uppáhaldsís leikmanna.

Eftir leik fagnaði líka Sean Payton, þjálfari New Orleans Saints, sigrinum með því að fara í slímsturtu eins og sjá má hér fyrir neðan.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×