Enski boltinn

„Er VAR versta vöruþróun sögunnar?“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mark var dæmt af Brentford með hjálp VAR í leiknum gegn Tottenham í gær.
Mark var dæmt af Brentford með hjálp VAR í leiknum gegn Tottenham í gær. getty/Tottenham Hotspur FC

Strákarnir í Sportinu í dag létu gamminn geysa þegar þeir ræddu um myndbandsdómgæsluna, VAR, í þætti dagsins.

Mark var dæmt af Brentford í leiknum gegn Tottenham í undanúrslitum enska deildabikarsins í gærkvöldi með hjálp myndbandsdómgæslu. Hún verður notuð í undanúrslitum og úrslitaleik deildabikarsins en var ekki notuð á fyrri stigum keppninnar.

„Svo sáum við í fyrri undanúrslitaleiknum í gær hvers lags viðbjóður er að draga VAR inn í þetta, þegar markið var dæmt af Brentford,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson í Sportinu í dag en atvikið má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Mark dæmt af Brentford

„Af hverju að breyta þessu? Í átta liða úrslitunum og þar á undan var þetta ekki notað. Eins og í Everton og Manchester United sá maður hversu mikil átök og hraði voru í leiknum. Það voru vafasamir dómar en það var samt enginn að kvarta,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason.

Kjartan Atli Kjartansson segir að innleiðing VAR hafi ekki verið framfaraskref fyrir fótboltann, heldur þvert á móti skaðað vöruna sem fótboltinn er.

„Ég var að hugsa um hvort VAR sé ekki versta vöruþróun sögunnar? Þú ert með fótbolta sem óumdeilanlega langvinsælasta íþrótt í heiminum,“ sagði Kjartan Atli.

„Fótbolti er eins og pizza fyrir skyndibita. Þetta er eins og það væri verið að banna ost á pizzur. Það er búið að taka út svo skemmtilegan faktor við fótboltann sem voru þessar eilífu umræður. Hann er ekki einu sinni farinn, bara orðinn leiðinlegri faktor því nú snýst þetta um af hverju þessi fór ekki í skjáinn og af hverju kíkti hann ekki á þetta. Fótbolti var nálægt hinni fullkomnu afþreyingu og það er búið að breyta honum án þess að það þyrfti að breyta nokkru.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×