Handbolti

Sagosen sammála Hansen og segir IHF hugsa meira um peninga en heilsu leikmanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sander Sagosen, nýkrýndur Evrópumeistari með Kiel, er skærasta stjarna norska handboltalandsliðsins.
Sander Sagosen, nýkrýndur Evrópumeistari með Kiel, er skærasta stjarna norska handboltalandsliðsins. getty/Martin Rose

Sander Sagosen, stórstjarna norska handboltalandsliðsins, tekur undir gagnrýni Danans Mikkels Hansen og finnst óskiljanlegt að áhorfendur verði leyfðir á HM í Egyptalandi.

Hansen sagðist á dögunum vera óviss hvort hann ætti að spila með Dönum á HM sökum þess að mótshaldarar ætli að selja áhorfendum aðgang að leikjum á mótinu, þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn.

Sagosen tók undir gagnrýni Hansens í viðtali við NTB og sagði að velferð leikmanna væri greinilega ekki í fyrsta sæti hjá Alþjóða handknattleikssambandinu, IHF. Forseti þess er Egyptinn Dr. Hassan Moustafa. 

„Þetta er fáránlegt, að leyfa áhorfendur eins og staðan í heiminum er núna,“ sagði Sagosen. „IHF hugsar meira um peninga en heilsu leikmanna. Ég held að allir ættu að sjá hversu galið það er að spila fyrir framan áhorfendur í þessu ástandi.“

Á mánudaginn var greint frá því að selt verði í tuttugu prósent sæta í hverri höll sem leikið verður í á HM. Áhorfendur þurfa að virða fjarlægðarmörk og nota andlitsgrímur.

Leikir Íslands í F-riðli fara fram í New Capital Sports höllinni sem tekur 7.500 manns í sæti. Allt að 1.500 manns gætu því verið á fyrstu þremur leikjum Íslands á HM.

Keppni á HM hefst eftir viku. Noregur er í E-riðli ásamt Frakklandi, Austurríki og Bandaríkjunum. Fyrsti leikur Norðmanna er gegn Frökkum fimmtudaginn 14. janúar.

Noregur hefur endað í 2. sæti á síðustu tveimur heimsmeistaramótum. Norðmenn töpuðu fyrir Frökkum í úrslitaleik HM 2017, 33-26, og Dönum í úrslitaleik HM 2019, 22-31.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×