Meistararnir töpuðu á suðurströndinni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Danny Ings skorar sigurmarkið.
Danny Ings skorar sigurmarkið. Naomi Baker/Getty Images

Liverpool er einungis með tvö stig af síðustu níu mögulegum í ensku úrvalsdeildinni. Ensku meistararnir töpuðu 1-0 fyrir Southampton á útivelli í kvöld. Sigurmarkið gerði markavélin Danny Ings.

Það voru liðnar tæpar tvær mínútur er fyrsta og eina mark leiksins leit dagsins ljós. James Ward-Prowse vippaði þá boltanum inn á Danny Ings, sem losaði sig frá Trent Alexander-Arnold og kláraði færið frábærlega.

Moussa Djenepo átti skot skömmu síðar en þrumuskot hans fór rétt framhjá. Liverpool var meira með boltann en vondar ákvarðanir trekk í trekk urðu til þess að Liverpool glutraði boltanum í álitlegum stöðum. 1-0 í hálfleik.

Á fimmtu mínútu síðari hálfleiks virtust meistararnir að vera fá vítaspyrnu. Þrumuskot Gini Wijnaldum fór beint í höndina á Jack Stephens og í hornspyrnu. Eftir skoðun í VARsjánni ákvað dómarateymið ekkert að gera og þar við sat, við litla hrifningu Liverpool.

Það voru liðnar 75 mínútur er Liverpool átti fyrsta skot sitt á markið en varamenn á borð við Xherdan Shaqiri og James Milner náðu ekki að blása lífi í leik Liverpool. Þeir voru mikið meira með boltann en varnarmúr Southampton hélt og lokatölur 1-0.

Liverpool er áfram á toppi deildarinar með 33 stig en hefur leikið einum leik fleiri en Man. United sem er með jafn mörg stig. Liðið hefur tapað gegn Southampton og gert jafntefli við WBA og Newcastle í síðustu þremur leikjum.

Southampton er í sjötta sæti deildarinnar með 29 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira