Innlent

Rafmagnslaust víða á Vesturlandi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Skjáskot af vef RARIK sem sýnir straumleysi á Vesturlandi og í Borgarfirði.
Skjáskot af vef RARIK sem sýnir straumleysi á Vesturlandi og í Borgarfirði. RARIK

Truflun á Vatnshamralínu Landsnets hefur valdið rafmagnsleysi víða á vestanverðu landinu.

Þetta staðfestir Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets í samtali við Vísi og segir að truflunin hafi valdið truflun á dreifikerfi RARIK. Þá fór Hrútatungulína einnig út og rafmagnslaust er á Snæfellsnesi vegna þessa. Á vef RARIK má nálgast kort sem sýnir þau svæði þar sem rafmagn fór út.

Í tilkynningu á vef RARIK segir: „Rafmagnstruflun er í gangi í landskerfinu á á öllu vesturlandi og er verið að vinna í að byggja upp kerfið.“

Samkvæmt upplýsingum frá svæðisvakt RARIK kom upp spennuhækkun í dreifikerfinu. Mannskapur frá RARIK hefur nú verið sendur að Vatnshömrum til þess að kanna aðstæður.

Verið er að keyra upp varaafl þessa stundina, en ekki liggur fyrir hvenær rafmagn verður komið á svæðin þar sem það fór út.

Uppfært klukkan 23:05: Samkvæmt upplýsingum á vef RARIK ætti rafmagn nú að vera komið inn í Húnaþingi.

Uppfært klukkan 23:50: Samkvæmt upplýsingum á vef RARIK er rafmagn ekki enn komið á alls staðar í Borgarfirði eða á Vesturlandi. Ráða má af tilkynningu að það verði ekki komið á í Borgarfirði fyrr en eftir klukkan tvö í nótt og í fyrsta lagi eftir klukkan eitt í nótt á Vesturlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×