Erlent

Nokkur hundruð lögreglumenn þurfti til að binda enda á partýið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mynd tekin í vöruskemmunni.
Mynd tekin í vöruskemmunni. Ap/Techno+

Vösk sveit nokkur hundruð lögreglumanna batt í dag enda á gríðarlega fjölmennt partý sem haldið var í yfirgefinni vöruskemmu í grennd við Rennes í Frakklandi.

Um svokallað „rave“ var að ræða sem staðið hafði yfir frá því á fimmtudaginn. Alls er talið að allt að 2.500 manns hafi sótt partýið þegar mest lét.

Lögregla hafði reynt að binda enda á skemmtunina án árangurs þar sem veislugestir streittust á móti.

Partýið var ólöglegt af ýmsum ástæðum vegna Covid-19, meðal annars vegna þess að strangar reglur gilda um útgöngubann í Frakklandi á kvöldin, en „rave-ið“ hafði staðið yfir nær sleitulast frá fimmtudegi.

Eftir að liðsauki barst lögreglu í dag ákvað hún að láta til skarar skríða og tókst henni að binda endi á partýið. Gerald Darmanin segir að alls hafi 1.200 veislugestir verið sektaðir, þar af 800 fyrir að hafa verið staddir í ólöglegu partýi, brjóta reglur um útgöngubann eða virða ekki grímuskyldu.

Fimm voru handteknir og saksóknarar hafa gefið út að gefnar verði út ákærur á hendur skipuleggjendum viðburðarins.

2,6 milljónir manna hafa greinst með kórónuveiruna frá því í vor í Frakklandi, alls hafa rétt tæplega 65 þúsund látist af völdum Covid-19 þar í landi.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Hundrað þúsund lög­reglu­menn munu koma í veg fyrir sam­komur

Yfirvöld í Frakklandi hafa ákveðið að setja hundrað þúsund lögreglumenn í viðbragðsstöðu á gamlárskvöld til þess að sporna gegn samkomum og fögnuðum. Útgöngubann er í gildi frá klukkan 20 og mun lögregla vera með sýnilega viðveru á almenningssvæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×