Lífið

Fimm ára stöðvaður á hraðbrautinni á leið að kaupa Lamborghini

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Drengurinn vissi upp á sig sökina. Búið er að fela andlit hans á þessari mynd.
Drengurinn vissi upp á sig sökina. Búið er að fela andlit hans á þessari mynd. Mynd/Lögreglan í Utah

Verkefnin geta verið fjölbreytt hjá umferðarlögreglu en það er líklega ekki oft sem umferðarlögreglumenn í Utah-ríki Bandaríkjanna hafa þurft að stöðva fimm ára ökumenn.

Það var nákvæmlega það sem gerðist á dögunum þegar lögregla veitti því athygli að ökulag eins ökumanns á hraðbraut í ríkinu var með undarlegasta móti.

Þegar ferð ökumannsins var stöðvuð kom í ljós að ökumaðurinn var ekki hár í loftinu og aðeins fimm ára gamall. Aðspurður um hvað í ósköpunum hann hafi verið að gera sagðist hinn fimm ára gamli ökuþór hafa ætlað sér að keyra til Kaliforníu á bíl foreldra hans.

Þar hafi hann ætlað sér að kaupa sér Lamborghini-sportbíl, þar sem mamma hans hafi neitað að kaupa slíkan bíl handa honum.

Slíkir bílar eru þó afar dýrir og segir á Twitter-síðu umferðarlögreglu Utah að líklega hefði drengurinn ekki haft efni á að kaupa sér sportbílinn hefði hann komist á áfangastað, enda bara með þrjá dollara í vasanum.

Talið er að drengurinn hafi ekið um hraðbrautina í fimm mínútur en engum varð meint af. Í frétt BBC segir að málið verði sett í hendur saksóknara sem muni taka ákvörðun um hvort einhverjum viðurlögum verði beitt. Í millitíðinni beinir lögreglan því til allra að tryggja að ung börn komist ekki í bíllykla fjölskyldubílsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×