Erlent

Órökstuddar fullyrðingar um að veiran sé manngerð

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Það er að minnsta kosti afar ólíklegt að veiran hafi verið búin til á þessari tilraunastofu, enda er hún í Keníu.
Það er að minnsta kosti afar ólíklegt að veiran hafi verið búin til á þessari tilraunastofu, enda er hún í Keníu. EPA/Daniel Irungu

Kínverjar segja ummæli Bandaríkjastjórnar um að kórónuveiran hafi verið sköpuð á tilraunastofu í Wuhan-borg út í hött. 

Bandaríkjamenn hafa skotið sífellt fastar á Kínverja undanfarnar vikur eftir því sem staðan versnar þar í landi. Washington Post greindi frá því að stjórn Donalds Trump forseta vildi að Kínverjar greiddu bætur vegna veirunnar. Þá vöktu ummæli Mikes Pompeo utanríkisraðherra, um að veiran væri manngerð, mikla athygli.

„Ég get sagt þér það að það eru mikil sönnunargögn fyrir því að þessi veira komi frá tilraunastofu í Wuhan,“ sagði Pompeo við Mörthu Raddatz, fréttamann ABC.

Kínverjar, WHO og leyniþjónustur ósammála

Þessu tóku Kínverjar ekki vel. Ríkismiðillinn Global Times birti ritstjórnargrein þar sem Pompeo var sagður afvegaleiða almenning með grundvallarlausum ummælum sínum.

Og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur ekki fengið neinar upplýsingar sem benda til þess að veiran sé manngerð. „Við einblínum á þau gögn sem við höfum og þau benda öll til þess að veiran sé náttúruleg,“ sagði Michael Ryan, yfirmaður krísustjórnunar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Þá hefur svokallað Five Eyes-leyniþjónustusamstarf Bretlands, Kanada, Ástralíu, Nýja-Sjálands og Bandararíkjanna ekki fundið neitt sem bendir til þess að veiran sé manngerð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×