Erlent

Skoða sín mál eftir að hafa flogið smekkfullri vél

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Airbus-þota á vegum Air Lingus.
Airbus-þota á vegum Air Lingus. Getty/ Nicolas Economou

Forsvarsmenn írska flugfélagsins Aer Lingus segjast vera með vinnureglur sínar til skoðunar eftir að vél á vegum félagsins flaug full af farþegum í gær. Fjölmörg flugfélög, sem sjá fram á að komast í gegnum kórónuveirufaraldurinn, reyna að nú að fóta sig í breyttum veruleika og öðlast traust veiruhræddra farþega.

Þannig hafa ýmis flugfélög, Icelandair þar á meðal, forðast það að selja í miðjusæti véla sinna á meðan Lufthansa og Wizz Air hafa komið á grímuskyldu. Flugsamgöngur eru þó í lamasessi, flest félög halda aðeins úti örfáum og bráðnauðsynlegum leiðum eða hafa alfarið fært sig yfir í fraktflutninga meðan ástandið varir.

Fyrrnefnt Air Lingus hefur þannig haldið úti takmörkuðu flugi á milli Lundúna og Belfast á Norður-Írlandi, flugleið sem félagið segir sjálft að mikil eftirspurn sé eftir. Air Lingus hefur sætt gagnrýni síðastliðinn sólarhring eftir að vél félagsins á þessari leið í gær var þéttsetin.

Talsmaður Air Lingus segir að flugfélagið sé með starfsáætlun sína til skoðunar eftir að umrædd vél var „óvenju mikið lestuð“ eins og talsmaðurinn orðaði. Í ljósi vinsælda flugleiðarinnar þurfi Air Lingus að grípa til einhverra aðgerða, án þess þó að tiltaka hvaða breytingar væru til skoðunar.

Ómögulegt er að segja til um hvenær flugsamgöngur komast aftur í samt horf. Lítil bjartsýni er í fluggeiranum hvað þetta varðar og hafa svartsýnustu spár borið með sér að það muni taka allt að tvö ár fyrir ferðalög að komast aftur í fyrra horf. Ýmsum hugmyndum hefur þó verið varpað fram til að liðka fyrir flugsamgöngum á kórónuveirutímum; tvíhliða samningar ríkja sem hafa staðið sig vel í baráttunni, að takmarka samneyti ferðamanna og innfæddra, að prófa ferðamenn fyrir veirunni fyrir eða eftir flugið o.s.frv.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×