Erlent

Dóttir fyrr­verandi leið­toga Kasakstan hættir sem for­seti þingsins

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Dariga Nazarbayeva lét af störfum sem forseti kasakska þingsins.
Dariga Nazarbayeva lét af störfum sem forseti kasakska þingsins. EPA/EKATERINA SHTUKINA

Dariga Nazarbayeva, elsta dóttir Nursultan Nazarbayev, fyrrverandi forseta Kasakstan, hefur látið af störfum sem forseti efri deildar þingsins. Engar frekari upplýsingar fengust um málið frá skrifstofu Kassym-Jomart Tokayev, forseta landsins, sem gaf út tilkynningu um málið.

Tokayev tilnefndi Nazarbayeva til þingsins auk þess sem hann tilnefndi hana til stöðu forseta þingsins. Samkvæmt stjórnarskrá Kasakstan er forseti þingsins fyrstur í röðinni til að taka við stöðu forseta falli hann frá eða segi hann af sér.

Tokayev var sjálfur forseti þingsins þar til í mars 2019 þegar Nazarbayev sagði skyndilega af sér eftir að hafa setið sem forseti í nærri þrjá áratugi. Nazarbayev, fyrrverandi forsetinn, hefur enn heilmikil völd í landinu þar sem hann er forseti öryggisnefndar þess og leiðtogi stjórnarflokksins Nur Otan. Hann heldur einnig titlinum Yelbasy eða leiðtogi ríkisins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×