Erlent

Dauðsföll á Spáni ekki færri í sex vikur en efnahagurinn rjúkandi rúst

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjálfboðaliði í hlífðarbúnaði tekur sýni úr íbúa á hjúkrunarheimili í Barcelona.
Sjálfboðaliði í hlífðarbúnaði tekur sýni úr íbúa á hjúkrunarheimili í Barcelona. Vísir/EPA

Á þriðja hundruð manns létust af völdum Covid-19 á Spáni síðasta sólarhringinn og hafa ekki færri látist á einum degi í sex vikur. Samdráttur efnahagslífsins á fyrsta ársfjórðungi ársins var sá mesti í sögunni.

Spánn er á meðal þeirra landa sem hafa orðið hvað verst úti í kórónuveiruheimsfaraldrinum til þessa. Þar hafa fleiri en 24.000 manns látist úr Covid-19, sjúkdómnum sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur. Eitt strangasta útgöngubann í heimi tók gildi þar um miðjan mars.

Heilbrigðisyfirvöld greindu í dag frá 268 dauðsföllum vegna faraldursins síðasta sólarhringinn. Ekki hafa færri látist á einum degi frá 20. mars þegar faraldurinn var í vexti. Alls hafa nú 213.435 greinst smitaðir af veirunni.

Efnahagslegt höggið af faraldrinum og aðgerðunum til að takmarka útbreiðslu hans hefur verið þungt fyrir spænska hagkerfið. Bráðabirgðatölur benda til þess að það hafi skroppið saman um 5,2%. Einkaneysla hafi dregist saman um 7,5% á sama tímabili, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Ríkisstjórn Pedro Sánchez, forsætisráðherra, kynnti fjögra þrepa áætlun um hvernig ætti að slaka á takmörkunum á þriðjudag. Ætlunin er að daglegt líf geti færst í hefðbundnara horf fyrir lok júní.

Hárgreiðslustofur og önnur fyrirtæki sem taka við tímapöntunum fá að hefja starfsemi aftur á mánudag. Veitingastaðir fá þá að bjóða upp á að viðskiptavinir sæki mat. Strendur, sem hafa verið lokaðar í útgöngubanninu, verða opnaðar aftur fyrir lok júní.


Tengdar fréttir

Ætla að slaka á útgöngubanni á Spáni í seinni hluta maí

Spænsk stjórnvöld stefna nú að því að byrja að slaka á útgöngubanni þar vegna kórónuveirufaraldursins í seinni hluta maí. Útgöngubannið er eitt það strangasta í heiminum og hefur börnum verið bannað að yfirgefa heimili sín.

Rúm­lega 20 þúsund nú látnir á Spáni

Alls voru skráð 565 dauðsföll af völdum Covid-19 á Spáni síðasta sólarhringinn. Er fjöldinn nokkru lægri en á sólarhringnum þar á undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×