Erlent

Konum í útgöngubanni ráðlagt að hætta að nöldra í eiginmönnum sínum

Samúel Karl Ólason skrifar
Konum var ráðlagt að nöldra ekki í eiginmönnum sínum, farða sig og klæða sig vel.
Konum var ráðlagt að nöldra ekki í eiginmönnum sínum, farða sig og klæða sig vel.

Ríkisstjórn Malasíu hefur beðist afsökunar eftir að konum var ráðlagt að „nöldra“ ekki í eiginmönnum sínum. Eins og víða annars staðar í heiminum eru íbúar Malasíu mikið heima fyrir þessa dagana og sendi ríkisstjórnin frá sér ráðleggingar fyrir fólk en þær þykja óviðeigandi og asnalegar.

Meðal annars var konum ráðlagt að hætta ekki að farða sig og klæða sig vel, þó þær væru mestmegnis heima, og að nöldra ekki um of í eiginmönnum sínum. Einnig var konum ráðlagt að sleppa allri kaldhæðni þegar þær biðja um hjálp við heimilisstörfin. Slíkt gæti hjálpað til vegna hinnar auknu samveru.

Nánar tiltekið var það ráðuneyti konu, fjölskyldu og samfélagsþróunar sem sendi frá sér þessar ráðleggingar á Facebook og Instagram. Þær hafa nú verið fjarlægðar.

Eftir að ráðleggingarnar voru fjarlægðar baðst ráðuneytið afsökunar og stóð í yfirlýsingu að ráðleggingunum hefði einungis verið ætlað að hjálpa til.

Eins og bent er á í frétt NPR hafa kvenréttindasamtök um allan heim lýst yfir áhyggjum af auknu heimilisofbeldi samhliða far- og samkomubönnum.

Minnst 2.900 smit nýju kórónuveirunnar hafa verið staðfest í Malasíu og hafa minnst 45 látið lífið. Meðal annars hafa verulegar hömlur verið settar á ferðir almennings í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×