Sport

Lukka með klifurvegg í garðinum og herberginu

Sindri Sverrisson skrifar
Lukka Mörk hefur verið að klifra í mörg ár þrátt fyrir að hún sé aðeins 16 ára gömul.
Lukka Mörk hefur verið að klifra í mörg ár þrátt fyrir að hún sé aðeins 16 ára gömul. Vísir/Vilhelm

Lukka Mörk, 16 ára klifurkona, var ferðbúin og mjög spennt fyrir Norðurlandamótinu þegar hætt var við mótið vegna kórónuveirufaraldursins. Í samkomubanninu hefur hún æft sig í garðinum heima og er komin með prýðisgóða aðstöðu til þess.

Henry Birgir Gunnarsson heimsótti Lukku í Sportinu í dag, á heimili hennar í Kópavogi. Þar er nú kominn upp myndarlegur klifurveggur sem Lukka æfir sig á en hún stefnir á þátttöku í stórum mótum erlendis í þessari vaxandi íþrótt.

„Ég var búin að prófa margar íþróttir og svo komu foreldrar mínir mér í klifur og ég festist alveg í því. Það hefur gengið vel hjá mér eiginlega síðan ég byrjaði. Þetta hefur alltaf verið mitt sport,“ segir Lukka sem byrjaði að klifra átta ára gömul.

Sigurður Ólafur Sigurðsson, faðir Lukku, segist hafa orðið að gera eitthvað í málunum þegar Lukka komst ekki lengur á klifuræfingar vegna samkomubanns. Hún er þó búin að vera með klifuraðstöðu í herberginu sínu í mörg ár.

„Hún hefur í nokkur ár verið með aðstöðu inni en þegar hún var búin að vera „innilokuð“ í svona langan tíma lét maður verða af því að setja eitthvað upp hérna úti, svo hún geti eitthvað aðeins haldið sér við,“ sagði Sigurður.

Lukka hefur eins og fyrr segir þegar misst af Norðurlandamóti en einnig æfingaferð til Frakklands vegna kórónuveirunnar, en ætlar sér stóra hluti þegar hægt verður að keppa að nýju.

„Maður var orðinn frekar spenntur, sérstaklega fyrir Norðurlandamótinu. Við áttum að fara út um nóttina en ferðinni var aflýst klukkan sex um kvöldið. Við vorum því búin að pakka og allt, og því mjög spælandi að missa af þessu,“ sagði Lukka.

Klippa: Sportið í dag - Lukka klifrar í garðinum heima

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×