Handbolti

„Var Loga að þakka sem er meistari í að peppa upp góða stemningu“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Logi og Ásgeir voru samherjar hjá bæði Lemgo og íslenska landsliðinu.
Logi og Ásgeir voru samherjar hjá bæði Lemgo og íslenska landsliðinu. vísir/samsett

Ásgeir Örn Hallgrímsson segir að það sé Loga Geirssyni að þakka að EHF-bikarinn sem Lemgo vann árið 2006 hafi endað hér á landi. Lemgo hafði þá betur í tveimur leikjum gegn Göppingen í úrslitaeinvíginu.

Íslendingarnir sem léku með liðinu á þeim tíma, Hafnfirðingarnir Ásgeir og Logi, komu með bikarinn hingað til Íslands og það voru mikil hátíðarhöld. Ásgeir segir að Logi hafi átt þessa hugmynd en Ásgeir var gestur í Sportinu í dag sem var sýnt í gær.

„Það er Loga að þakka. Hann er meistari í að peppa upp góða stemningu sem hann virkilega gerði þarna. Þetta var ógeðslega gaman,“ sagði Ásgeir áður en Kjartan Atli skaut inn að Logi væri komið með einhverskonar gerð af Silver-geli í hárið: „Þarna voru þeir komnir langt með það í þróunarferlinu.“

Ásgeir fór 21 árs út til Lemgo og hann segir að þetta hafi ekki verið neitt dans á rósum til að byrja með. Hann fékk þó traustið undir lok leiktíðarinnar og heldur betur sýndi hvað í honum býr.

„Þetta var ótrúlega gaman. Það gekk brösuglega hjá mér í byrjun og fyrsta árið var erfitt. Sérstaklega fyrstu mánuðirnir en svo fór þetta að smella undir lokin og það voru einhver meiðsli svo þeir þurftu að nota mig síðustu tvo mánuðina.“

„Þar á meðal var það í þessum einvígum og það gekk ljómandi vel. Það var í fyrsta skipti sem ég fann að ég ætti eitthvað í þetta,“ sagði Ásgeir.

Klippa: Sportið í dag - Ásgeir Örn um EHF-bikarinn

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×