Viðskipti innlent

Sameina Icelandair og Air Iceland Connect og segja Birni upp störfum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Air Iceland Connect er dótturfélag Icelandair Group og sinnir innanlandsflugi og flugi til Grænlands.
Air Iceland Connect er dótturfélag Icelandair Group og sinnir innanlandsflugi og flugi til Grænlands. Vísir/Sigurjón

Forsvarsmenn Icelandair Group hafa ákveðið að „samþætta rekstur Air Iceland Connect og Icelandair,“ eins og það er orðað í tilkynningu frá félaginu. Þessu fylgir hið minnsta ein uppsögn í tilfelli framkvæmdastjóra Iceland Travel.

Ætlunin er sögð að sameina hina ýmsu svið flugfélaganna tveggja; svo sem flugrekstrarsvið, sölu- og markaðsmál, mannauðsmál, fjármálasvið og upplýsingatækni.

Félögin tvö verði þó áfram með aðskilin flugrekstrarleyfi og áhafnir Air Iceland Connect verða áfram starfsmenn þess félags. Staða framkvæmdastjóra Air Iceland Connect verður samhliða lögð niður. 

Björn Víglundsson var ráðinn framkvæmdastjóri Iceland Travel í fyrrasumar.vodafone

Árni Gunnarsson, núverandi framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, mun taka við sem framkvæmdastjóri Iceland Travel á næstu vikum, en Björn Víglundsson mun láta af störfum. 

Árni mun vinna áfram með stjórnendum Icelandair að samþættingu rekstrar flugfélaganna og Björn stýrir Iceland Travel á meðan á þessari vinnu stendur.

Haft er eftir forstjóra Icelandair Group að þau sjái margvísleg tækifæri með umræddri samþættingu. Allra leiða sé leitað til að hagræða í því ástandi sem nú ríkir. 

„Um leið og ég þakka Árna Gunnarssyni fyrir mikilvægt framlag við uppbyggingu Air Iceland Connect á síðustu 15 árum, býð ég hann velkominn til starfa á nýjum vettvangi innan félagsins. Á sama tíma vil ég þakka Birni Víglundssyni fyrir mjög gott starf og mikið framlag til Icelandair Group samstæðunnar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×