Íslenski boltinn

Leikmenn og þjálfarar KA taka á sig 20-30% launalækkun í átta mánuði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KA endaði í 5. sæti Pepsi Max-deildar karla á síðasta tímabili.
KA endaði í 5. sæti Pepsi Max-deildar karla á síðasta tímabili. vísir/bára

Leikmenn og þjálfarar karlaliðs KA í fótbolta hafa tekið á sig launalækkun vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Launalækkunin nemur á bilinu 20-30%.

„Þetta gekk ótrúlega vel. Við settumst niður með öllum hópnum og þjálfurum á fimmtudag, föstudag og laugardag. Allir tóku vel í þetta úrræði hjá okkur og vildu leggjast á árarnar með okkur að klára þetta. Við erum mjög þakkátir leikmannahópnum og þjálfurunum,“ sagði Sævar í samtali við Henry Birgi Gunnarsson í Sportinu í dag.

Sævar segir að einhugur hafi ríkt í leikmannahópi KA og enginn hafi sett sig upp á móti launalækkuninni.

„Við bjuggumst alveg eins við því. Við lögðum þetta upp þannig að þetta gengi yfir allan hópinn. Allir samþykktu þetta,“ sagði Sævar en undanfarna daga hafa leikmenn KA skrifað undir nýja samninga við félagið sem gilda frá 1. mars og út október.

„Leikmönnum fannst þetta betri lausn en 2-3 mánuðir þar sem yrðu engar tekjur,“ bætti Sævar við.

Eins og áður sagði taka leikmenn og þjálfarar KA á sig 20-30% launalækkun.

„Þetta fer yfir allan hópinn og á jafnt við um þjálfara, framkvæmdastjóra og leikmenn,“ sagði Sævar sem lækkaði því eigin laun.

„Hann [framkvæmdastjórinn] var þver en hann tók þátt í þessu eins og aðrir,“ sagði Sævar léttur. „Þannig þarf það að vera. Við erum ein heild og þurfum að taka þetta á okkur tímabundið. Vonandi hjálpar þetta félaginu til að klára sín mál.“

Viðtalið við Sævar má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Sportið í dag - Launin lækkuð hjá KA

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×