Erlent

Trump hættur við að setja New York í sóttkví

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Trump er hættur við.
Trump er hættur við. Vísir/Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti er ekki lengur að íhuga að setja New York-ríki í sóttkví. Þegar það var til skoðunar mætti það harðri gagnrýni. Ríkisstjóri ríkisins kallaði hugmyndina „fráleita.“

Trump sagði að ákvörðun um málið hafi verið tekin eftir ráðleggingum sérstaks kórónuveiruteymis Hvíta hússins. Áður hafði forsetinn sagt að hann myndi mögulega setja ríkið allt í sóttkví, ásamt hlutum New Jersey og Connecticut, til þess að hægja á útbreiðslu COVID-19.

52 þúsund tilfelli COVID-19 eru nú komin upp í New York, eða um helmingur staðfestra tilfella í öllum Bandaríkjunum.

Trump tísti fyrir skömmu að í stað sóttkvíar yrðu gefin út ráðleggjandi tilmæli um ferðalög fyrir íbúa New York, New Jersey og Connecticut.

Áður hafði Tump sagt á blaðamannafundi að hann vildi setja ríkið í sóttkví. Hann væri í það minnsta að íhuga það og sagði að slíkar aðgerðir gætu hægt á útbreiðslu veirunnar til annarra hluta Bandaríkjanna.

Andrw Cuomo, ríkisstjóri New York.Vísir/Getty

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, tók illa í hugmynd forsetans um að setja ríkið í sóttkví. Kallaði hana „fráleita“ og „and-ameríska.“

Sagði hann að ríkið væri þegar búið að gera ráðstafanir, svo sem banna fjöldasamkomur og skipa fólki að vera heima. Hann myndi hins vegar setja sig upp á móti því að borginni yrði einfaldlega lokað og lyklinum hent.

„Þá værum við eins og Wuhan í Kína. Það væri ekkert vit í því,“ sagði Cuomo og bætti við að aðgerðir líkar þeim sem Trump stakk upp á myndu lama verðbréfamarkaðinn á þann hátt að það tæki bandaríska efnahagskerfið mánuði, jafnvel ár, að jafna sig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×