Erlent

Neyðarsjúkrahús reist í Íran þar sem faraldurinn logar

Þórir Guðmundsson skrifar
Starfsmaður í hlífðarbúnaði gengur um neyðarspítala hersins í Teheran, sem gerður er fyrir 2.000 sjúklinga, í stórri sýningarhöll í norðurhluta borgarinnar.
Starfsmaður í hlífðarbúnaði gengur um neyðarspítala hersins í Teheran, sem gerður er fyrir 2.000 sjúklinga, í stórri sýningarhöll í norðurhluta borgarinnar. Ebrahim Noroozi/AP

Stjórnvöld í Íran sögðu í dag að 144 hefðu látið lífið úr Covid-19 sjúkdómnum síðastliðinn sólarhring. Alls hafa greinst 32.000 tilfelli kórónuveirunnar í landinu og næstum 2.400 manns hafa látið lífið úr sjúkdómnum sem veiran veldur. 

Yfirvöld halda því fram að þau hafi stjórn á faraldrinum en að sögn AP fréttastofunnar óttast margir að heilbrigðiskerfið í landinu muni ekki ráða við álagið mikið lengur. 

Íranski herinn er búinn að reisa tvö þúsund rúma neyðarspítala í höfuðborginni Teheran. Ríkissjónvarpið hafði eftir Ali Jahanshahi hershöfðingja í gærkvöldi að herinn væri búinn að afhenda heilbrigðiskerfinu sjúkrahúsið og að þar yrði hægt að taka við sjúklingum í næstu viku. 

Á myndum af spítalanum, sem er í risastórum sýningarsal í norðanverðri borginni, má sjá að ekki er gert ráð fyrir skilrúmum milli sjúklinga. Óljóst er hvaða lækningatæki verða notuð. 

Stjórnvöld í Íran hvetja fólk til að halda sig heima en hafa ekki sett útgöngubann líkt og önnur lönd á svæðinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Fyrr í þessari viku hafnaði Ali Khamenei æðsti leiðtogi Írans tilboði Bandaríkjastjórnar um aðstoð. 

Á síðustu dögum hafa hundruð Írana orðið veikir eða jafnvel látið lífið eftir að drekka metanól, sem margir halda að veiti vernd gegn kórónuveirunni. Margir íbúar landsins eru fullir grunsemda í garð stjórnvalda, sem reyndu að gera lítið úr faraldrinum í upphafi. 

Vantraust á hið opinbera hefur virkað sem olía á eld flökkusagna og kenninga um mátt meintra lækningameðala, þar á meðal metanóls. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×