Körfubolti

Mögulega mikilvægasti leikur körfuboltans fór fram á þessum degi fyrir 41 ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Larry Bird hjá Indiana State og Magic Johnson hjá Michigan State í úrslitaleik bandaríska háskólakörfuboltans 26. mars 1979.
Larry Bird hjá Indiana State og Magic Johnson hjá Michigan State í úrslitaleik bandaríska háskólakörfuboltans 26. mars 1979. Getty/ James Drake

Margir hafa slegið því fram að Larry Bird og Magic Johnson hafi í sameiningu bjargað NBA deildinni úr erfiðri stöðu þegar þeir komu inn í deildina í upphafi níunda áratugarins.

Það sem hjálpaði til var að þeir Magic og Bird voru orðnir erkifjendur áður en þeir mættust með liðum sínum Los Angeles Lakers og Boston Celtis. Kapparnir höfðu einnig spilað um titilinn í bandaríska háskólakörfuboltanum.

Auðvitað hjálpaði mikið að þeir skyldu enda með tveimur af frægustu og sigursælustu liðum NBA-deildarinnar og á sitthvorri ströndinni. Það var samt annað sem skipti miklu máli og sá til þess að allir vissu hverjir Magic Johnson og Larry Bird voru þegar þeir mættu í NBA.

Upphafið af einvígi Bird og Magic má nefnilega rekja til úrslitaleik bandaríska háskólaboltans sem fór fram á þessum degi árið 1979 eða fyrir 41 ári síðan.

Larry Bird var þá búinn að gera ótúlega hluti með Indiana State og komst alla leið í úrslitaleikinn á móti Magic Johnson og félögum í Michigan State.

Magic Johnson og félagar í Michigan State unnu úrslitaleikinn 75-64 eftir að hafa verið 37-28 yfir í hálfleik. Magic var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitaleiksins þar sem hann var með 24 stig og hitti úr 8 af 15 skotum.

Larry Bird var búinn að skora yfir þrjátíu stig í sjö leikjum í röð á leiðinni í úrslitaleikinn en hitti aðeins úr 33 prósent skota sinna og endaði með 19 stig. Hann tók samt 13 fráköst eða meira en allir aðrir á vellinum.

Áhuginn var gríðarlegur á úrslitaleiknum en hvorki fyrr eða síðar hafa fleiri horft á úrslitaleik í háskólaboltanum. 38 prósent sjónvarpstækja í Bandaríkjunum voru að horfa á leikinn þetta kvöld.

Magic Johnson sló í gegn á fyrsta ári í NBA deildinni og varð NBA-meistari ári seinna eftir að hafa fyllt í skarð Kareem Abdul-Jabbar í lokaleiknum og endaði með 42 stig, 15 fráköst og 7 stoðsendingar.

Larry Bird vann NBA-titilinn ári síðan og lið þeirra mættust síðan þrisvar sinnum í eftirminnilegum úrslitaeinvígum á níunda áratugnum.

Larry Bird endaði með þrjá meistaratitla (1981, 1984, 1986) og var þrisvar sinnum kosinn besti leikmaður NBA deildarinnar (1984–1986).

Magic Johnson endaði með fimm meistaratitla (1980, 1982, 1985, 1987, 1988) og var þrisvar sinnum kosinn besti leikmaður NBA deildarinnar (1987, 1989, 1990).

Í sameiningu leiddu þeir NBA deildina út úr skuggastrætum áttunda áratugarins og gerðu hana að einni vinsælustu deild í heimi.

Hér fyrir neðan má sjá allan þennan sögulega leik fyrir nákvæmlega 41 ári síðan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×