Handbolti

Segir launin í íslenskum íþróttum of há: „Tölur sem maður hefur séð verkalýðshreyfinguna berjast fyrir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
ÍR-ingar tefla fram nokkuð breyttu liði á næsta tímabili.
ÍR-ingar tefla fram nokkuð breyttu liði á næsta tímabili. vísir/bára

Laun í íslenskum handbolta, og íslenskum íþróttum yfirhöfuð, eru of há. Þetta segir formaður handknattleiksdeildar ÍR, Sigurður Rúnarsson.

ÍR-ingar eiga í fjárhagserfiðleikum, hafa misst styrktaraðila og þurfa að draga saman seglin.

„Í handboltanum eru nokkur lið sem eru vel stæð og það er erfitt að keppa við þau. Þrír leikmenn frá okkur eru að fara til Aftureldingar og þeir ætla víst að fá fleiri leikmenn. Það er frábært ef það gengur vel,“ sagði Sigurður í Sportinu í dag. Leikmennirnir sem fara frá ÍR til Aftureldingar eru Bergvin Þór Gíslason, Sveinn Andri Sveinsson og Þrándur Gíslason Roth.

„Það er æðislegt fyrir strákana og stelpurnar ef þau fá góð laun fyrir það sem þeim finnst gaman að gera. En svona lítið land eins og við, mér finnst þetta ekki vera sjálfbært lengur. Ég get ekki séð að íþróttamaður á Íslandi sé að slaga frá hálfri milljón upp í milljón í laun.“

Sigurður segir að fólk á almennum vinnumarkaði væri sátt við laun sem sumt íþróttafólk á Íslandi fær.

„Það er æðislegt ef lið geta þetta en mér finnast þetta vera orðnar rosalegar tölur. Og við keppum ekki við þær. Þetta eru tölur sem maður hefur séð verkalýðshreyfinguna berjast fyrir,“ sagði Sigurður.

Klippa: Sportið í dag: Sigurður um launatölur leikmanna

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×