Innlent

Sjúk­lingum með kórónu­veiruna gefið malaríu­lyf á Land­spítala

Eiður Þór Árnason skrifar
Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum.
Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum. Vísir

Mikill skortur er nú á nauðsynlegum hlífðarfatnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk víða um heim en að sögn Bryndísar Sigurðardóttur smitsjúkdómalæknis þarf ekki að hafa áhyggjur af skorti hér á landi eins og staðan er í dag.

Fólk sem er lagt inn á Landspítala vegna kórónuveirunnar er nú gefið malaríulyf sem vonast er til að nýtist í baráttunni við COVID-19 sjúkdóminn sem veiran veldur.

Smitsjúkdómadeild Landspítalans í Fossvogi hefur verið breytt í eina stóra COVID-19 deild og er það meðal annars gert til þess að spara hlífðarfatnað.

„Þetta verða þá kannski fimmtán til sautján sjúklingar og við þurfum þá ekki að fara alltaf aftur úr grímunni, gleraugunum og hárnetinu, þannig að það kemur til með að nýtast vel,“ sagði Bryndís í morgunþættinum Bítinu.

Skelfilegt ástand á sumum stórum háskólasjúkrahúsum

Hún segir alvarlegt ástand vera á mörgum erlendum sjúkrahúsum vegna skorts á þessum nauðsynlega búnaði.

„Við viljum meina að við séum með nægan hlífðarbúnað eins og er og við þökkum fyrir það þar sem við höfum heyrt skelfilegar sögur, meira að segja af stórum háskólaspítölum bæði í London og Bandaríkjunum, sem eru alveg með ólíkindum.“

„Þetta eru ekki einhverjir sveitaspítalar, þetta eru stórir háskólaspítalar þar sem að læknar eru beðnir um að vera grímuna í heilan dag og jafnvel lengur, þangað til hún er orðin sjáanlega óhrein og það er verið að endurnýta fatnaðinn.“

Starfsfólk Landspítalans er vel búið á tímum kórónuveirunnar.Vísir/vilhelm

Gefa sjúklingum malaríulyf sem verið hefur til umræðu

Öflugt úthringteymi sérfræðinga sér um að tilkynna fólki um smit og fylgist náið með því í framhaldinu. Mikið álag er á starfsfólki Landspítalans um þessar mundir og segir Bryndís að læknar hafi verið að skoða einstaklinga fram á kvöld í gær.

„Þar voru læknar að skoða fólk til átta í gærkvöldi og sumir þeirra þurftu innlögn, þurftu súrefni, frekara mat og hjúkrun, þannig að þeir eru þá lagðir inn og eru settir á þessi sýklalyf sem talað hefur verið um, malaríulyf og jafnvel önnur lyf.

Umrætt malaríulyf hefur verið nokkuð til umfjöllunar að undanförnu en Bryndís segir að enn sé mjög erfitt að segja til um það hvort sú meðferð sýni árangur gagnvart COVID-19.

„Við höfum verið að fylgjast með bæði upplýsingum sem eru að koma frá Evrópu og Bandaríkjunum og það eru svona skiptar skoðanir um það hversu gott þetta lyf er. Þetta er mjög lítil rannsókn sem allir eru að tala um.“

Hún segir að niðurstöður þeirrar rannsóknar bendi til þess að sjúklingar sem fái lyfið losi sig við veiruna fyrr en ella. Einnig er verið að prófa að nota önnur lyf sem séu nú þegar á markaði og fleiri eru til skoðunar.

Ágætlega gengið að vernda starfsfólk

Ágætlega hefur gengið að vernda heilbrigðisstarfsfólk hér á landi fyrir sýkingu að mati Bryndísar.

„Það koma náttúrulega upp tilvik þar sem fólk er að birtast með ódæmigerða birtingarmynd [veirunnar]. Þetta eru kannski kviðverkir, niðurgangur eða gífurlegur slappleiki.“

Þá hafi verið dæmi um að læknar í heimahúsi, á heilsugæslu eða á bráðamóttöku átti sig ekki strax á því að um sé að ræða kórónuveirusýkta einstaklinga.

„Þá fara þeir heilbrigðisstarfsmenn í sóttkví sem voru í mikill nánd og snertingu við þessa einstaklinga. Það hefur gerst og mun gerast, maður þarf bara að átta sig á því að svona er þetta bara.“

Byrja yfirleitt að finna fyrir pirringi í hálsi

Bryndís segist hafa rætt um veiruna við marga lækna upp á Landspítalanum sem segja sýkta sjúklinga oft fyrst finna fyrir einkennum í hálsi.

„Það virðist byrja sem kitl eða pirringur eða ertingur í hálsinum. Sumir eru til dæmis ekkert með hita en eru bara gífurlega slappir. Enn aftur börn virðast koma mjög vel út úr þessu þó þau hafi greinst með veiruna þá eru þau mjög lítið veik.“

Hún segir tölur frá stærri ríkjum á borð við Þýskaland þar sem dánartíðni hefur verið mun lægri en á Spáni og Ítalíu vera góðar fréttir fyrir Íslendinga.

Mikill viðbúnaður er á Landspítalanum.vísir/vilhelm

„Við erum í svolítið svipaðri stöðu vonandi og Þýskaland. Þar var kannski ungt hraust fólk sem fór á skíði til Ítalíu og kom með veiruna til baka inn til Þýskalands og þar að auki voru Þjóðverjar, eins og við, svolítið undirbúin. Við vorum byrjuð að undirbúa okkur mjög vel áður en veiran fer í dreifingu í þjóðfélaginu og þetta er öfugt til dæmis við Ítalíu og Spán að mínu mati.“

Meira sé um sýkingar hjá eldra fólki á Spáni og Ítalíu þar sem ríkir nú skelfilegt ástand. Hér á landi sé veiran ekki komin inn á öldrunarstofnanir og aldraðir virðist ekki vera að sýkjast mikið.

„Þetta er upp til hópa frekar ungt og aktíft fólk enn þá og þess vegna er þetta samkomubann og þessi rakning og þessi greining og þessi sóttkví, enn þá svo ofboðslega mikilvægt tæki til að forða viðkvæmum hópum frá sýkingunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×