Viðskipti innlent

Snúið hjá Ístaki að hefja smíði skóla á Grænlandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Á skólalóðinni í Nuuk 18. desember síðastliðinn, daginn sem samningar voru undirritaðir. Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, Charlotte Ludvigsen, borgarstjóri sveitarfélagsins Sermersooq, sem Nuuk tilheyrir, og Hermann Sigurðsson yfirverkfræðingur Ístaks.
Á skólalóðinni í Nuuk 18. desember síðastliðinn, daginn sem samningar voru undirritaðir. Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, Charlotte Ludvigsen, borgarstjóri sveitarfélagsins Sermersooq, sem Nuuk tilheyrir, og Hermann Sigurðsson yfirverkfræðingur Ístaks. Mynd/Sveitarfélagið Sermersooq.

Ístaksmenn standa frammi fyrir óvæntri áskorun þessa dagana að hefjast handa við smíði skólabyggingar í Nuuk á Grænlandi vegna ferðatakmarkana sem fylgja kórónu-faraldrinum. Landamærum Grænlands hefur í reynd verið lokað gagnvart öðrum en borgurum danska ríkisins og öllu áætlunarflugi milli Íslands og Grænlands hefur verið aflýst fram undir miðjan apríl.

Það var skömmu fyrir síðustu jól sem ráðamenn Ístaks undirrituðu ellefu milljarða króna samning, einn þann stærsta í sögu verktakans, um smíði skóla- og menningarmiðstöðvar í Nuuk. Þetta er þriggja ára verkefni en skólinn mun þjóna bæði sem leik- og grunnskóli og verður sá stærsti á Grænlandi.

Sjá nánar hér: Ístak undirritar verksamning um smíði stærsta skóla Grænlands

„Þetta setur okkur í erfiða stöðu nú þegar við erum að fara að senda mannskap og búnað af stað en það eru þó allir að reyna að leysa þetta með okkur,“ segir Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks.

„Ef ferðahömlur dragast á langinn þá hefur það náttúrlega mikil áhrif á starfsemi okkar, bæði hér heima og á Grænlandi. Við þurfum sífellt að skoða breyttar sviðsmyndir, eins og flest fyrirtæki nú á dögum,“ segir Karl.

Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks.Stöð 2/Sigurjón Ólason.

„Fyrsta skip með búnað á að leggja að í Nuuk um páskana og strax eftir páska ætluðum við að fara að byrja með jarðvinnu og niðurrekstur steyptra staura með sérhæfðum búnaði sem þarf þá að vera með þessu skipi.“

Air Iceland Connect hefur gefið það út á heimasíðu sinni að allt flug til Grænlands fram til 13. apríl, annars dags páska, hafi verið fellt úr áætlun. Annar möguleiki fyrir Ístaksmenn til að komast til Grænlands, en þá á undanþágu, væri að fljúga um Kaupmannahöfn þaðan sem Air Greenland heldur uppi áætlunarflugi til Kangerlussuaq.

Skólabyggingin verður samtals sextán þúsund fermetrar að stærð.Teikning/Ístak

„Við eigum að getað fengið leyfi til að senda sérhæft fólk af stað í gegnum Danmörku en það lendir þó alltaf í að fara í tveggja vikna sóttkví í báðum endum ferða.

Þetta er því mikið púsluspil en það er bara að vinna að lausnum og sjá hvað hægt er að gera. Þetta breytist einnig dag frá degi en við erum í góðu sambandi við verkkaupa varðandi þessar óvæntu áskoranir,“ segir framkvæmdastjóri Ístaks.

Sjá einnig hér: Mikil tækifæri framundan á Grænlandi fyrir verktaka


Tengdar fréttir

Íslendingum vísað burt á flugvellinum í Færeyjum

Fjórum Íslendingum, sem hugðust heimsækja Færeyjar , var vísað burt á flugvellinum í Vogum og meinað að koma inn í landið, í samræmi við hertar reglur Færeyinga vegna kórónufaraldursins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×